Fréttir

22.08 2017 - Þriðjudagur

Íþróttahúsið opnar brátt á ný

Gólf íþróttahúss Vopnafjarðar hefur verið endurnýjað svo sem frá hefur verið greint hér að gera skyldi. Fagmennirnir Björn og Gunnlaugur luku verki sínu um miðjan dag á sunnudag síðastliðinn en það er í mörg horn að líta þegar ráðist er í gólfefnaskipti íþróttahúss. Gamli dúkurinn var búinn að þjóna samfélaginu vel í 30 ár en var vissulega farinn að láta á sjá. Samþykkt var í sveitarstjórn á liðnu hausti að fara í þessa framkvæmd og má fullyrða að henni verði vel fagnað af notendum þegar húsið opnar í byrjun næstu viku.

21.08 2017 - Mánudagur

Vopnafjarðarskóli settur í dag

Í dag verður Vopnafjarðarskóli settur í sal skólans. Starfsmenn hófu vinnu sína flestir í liðinni viku þar sem starfið var skipulagt en setning skólans markar ávallt tímamót. Frelsi sumarsins sem ungviðið hefur notið er að baki og við tekur skipulagt vetrarstarfið. Framundan er því tími skyldumætingar og skipulegs náms en þó frelsið sé yndislegt hefur stundartaflan sína augljósu kosti því meiri festa kemst á líf hlutaðeigandi.

18.08 2017 - Föstudagur

Sýningin LAUSIR ENDAR á Vopnafirði

Er uppruni Álfkonudúksins frá Burstarfelli fundinn? Þessarar spurningar er spurt í tengslum við sýninguna LAUSIR ENDAR sem opnar laugardaginn 19. ágúst nk. kl. 13:00 í safnaðarheimili Vopnafjarðarkirkju. Verður Álfkonudúkurinn sýndur á Vopnafirði fyrsta sinni svo um merkilegan viðburð er að ræða. Einnig verða til sýnis listaverk sem unnin hafa verið undir áhrifum frá dúknum af norsku listakonunni Ingrid Larssen sem átti hér viðdvöl á haustdögum 2016. Auk heldur til sýnis teikningar Vopnfirskra barna saumaðar í dúk af Vopnfirskum konum. Verður Margrét Hallgrímsdóttir þjóminjavörður við opnun sýningarinnar.

16.08 2017 - Miðvikudagur

Unnið að gólefnaskiptum í íþróttahúsinu

Allt á sér upphaf og endi. Það á til að mynda við um gólf íþróttahússins sem eins og önnur gengur úr sér. Eftir 30 ára trausta þjónustu hefur gólfdúknum verið flett af steinsteyptri plötunni og á fáeinum dögum er eins og það hafi aldrei verið til. Sigurvin gröfukall skóf það mesta af og hefði liðsmenn áhaldahúss sér til aðstoðar. Gamalt kveður og nýtt efni tekur við.

Vakin er athygli á að húsið er öllum lokað föstudaginn 18. ágúst nk. og gæti komið til frekari lokunar í tengslum við framkvæmdirnar.

14.08 2017 - Mánudagur

Kosið verður um prest í Hofsprestakalli

Biskupsstofa hefur staðfest að almenn prestskosning verði um nýjan sóknarprest í Hofsprestakalli sem nær yfir Hofs-, Skeggjastaða- og Vopnafjarðarsóknir. Ekki hefur er enn ljóst hvenær verður kosið en nýr prestur á að taka við um miðjan október. Umsóknarfrestur er til 23. ágúst nk.

Aðspurður um málið sagði sóknarnefndarformaðurinn Ólafur Björgvin Valgeirsson að biskup hafi gefið út tilskipun um að kosið verði og í embættið verði skipað þann 15. október nk. Er presturinn ráðinn til 5 ára.

31.07 2017 - Mánudagur

Hreppsskrifstofan lokuð vegna sumarleyfa

Skrifstofa Vopnafjarðarhrepps verður lokuð vegna sumarleyfa frá og með þriðjudaginn 01. ágúst nk. til og með sunnudaginn 13. Skrifstofan opnar að nýju mánudaginn 14. ágúst kl. 10:00.

28.07 2017 - Föstudagur

Framkvæmdir á lóð Brekkubæjar

Þegar farið er um Lónabraut leynir sér ekki að framkvæmdir standa yfir á lóð leikskólans Brekkubæjar og mun ásýnd hennar breytast mikið að þeim loknum. Raunar má greina breytingarnar nú þegar en samkvæmt hönnun Dagnýjar Bjarnadóttur landslagsarkitekt er gert ráð fyrir stígum sem gefa ungum nemendunum tækifæri til leikja sem ekki bauðst áður. Hefur hönnuðurinn tekið mið af formi lands og ganga stígarnir þvert á halla þess en svo sem hjálögð grunnmynd sýnir verður hringtorg norðan skólans. Leikur ekki vafi á að framkvæmdin verður öllum hlutaðeigandi til gleði og ánægju um leið og umhverfið er endurskapað með smekklegum hætti.

26.07 2017 - Miðvikudagur

Unglingalandsmót UMFÍ

Dagana 04. til og með 06. ágúst nk. verður Unglingalandsmót UMFÍ haldið á Egilsstöðum en mótið var haldið á sama stað fyrir 6 árum síðan. Er það UÍA, Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands, sem mótið heldur í samvinnu við íþróttafélög á Austurlandi . Að vanda eru ungmenni á aldrinum 11 – 18 ára hvött til þátttöku en það ber öllum saman um sem reynt hafa að fátt tekur þátttöku á þessu móti fram. Fer saman áhugaverð keppni og umgjörð mótsins en reikna má með allt að 10 þúsund gestum. Auk þess sem UÍA kallar eftir íþróttafólki biðlar sambandið til íþróttafélaga í fjórðungnum um sjálfboðaliða á mótinu. Það liggur í hlutarins eðli að mót sem þetta kallar á fjölda fólks til margvíslegra starfa.

24.07 2017 - Mánudagur

Vatnsleikfimi í Selárlaug þessa vikuna

Sundlaugargestum Selárlaugar býðst vatnsleikfimi þessa vikuna, 24. til og með 28. júlí, undir handleiðslu Hjördísar Valgarðsdóttur sundkennara. Um er að ræða fjölbreyttar æfingar sem hinn reyndi sundkennari setur saman hverju sinni. Eru æfingarnar við allra hæfi og gleðin með í för. Býðst leikfimin gestum að kostnaðarlausu - hið sem hafa þarf í huga er að mæta stundvíslega; æfingarnar byrja kl. 10:30 hvern dag og standa í 20-30 mínútur.

18.07 2017 - Þriðjudagur

Blíðviðri framundan

Sumarið hefur verið undir væntingum þótt Veðurstofan meti tíðarfar í júní sem nokkuð hagstætt en vissulega í svalara hafi verið miðað við sl. áratug. Sólardagar hafa t.a.m. ekki verið færri á Akureyri um áratugaskeið og ef litið er til baka gildir líklega hið sama fyrir Austurland. Sem dæmi hafa leikmenn Einherja leikið við svalan vind og oftar en ekki rigningu í heimaleikjum sínum. Í fersku minni eru leikir meistaraflokka félagsins 23. og 24. júní sl. þegar yfir Austurland gekk illviðri með grenjandi rigningu og hávaðaroki. Síðastliðinn laugardag var lygnt veður en rigning sú sem bauðst fer líklega í sögubækur, á örskotastundu urðu til tjarnir og lækir í þéttbýli Vopnafjarðar. Nú er von á betri tíð!


13 - 22 af 1853
1 2 3 4 5 6 7 8 9 10  > 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir