23.10 2017 - Mánudagur

Vetur genginn í garð

Vetur heilsaði síðastliðinn laugardag og allt fram til 19. apríl nk. mun hann ríkja skv. almanakinu. Sumarið var rysjótt, byrjaði undur vel, millikaflinn lengstum undir meðallagi  en seinni partur góður. Það sem við köllum öllu jafna haust, september-október, hefur innihaldið lengstu góðviðriskaflana og kemur sem uppbót á sumar sem var undir væntingum en öllu jafna er talað um sumarmánuðina sem júní, júlí og ágúst. Þeir mánuðir eru allténd hásumar og sá tími sem við gerum alltaf mestar væntingar og þrár til, frí og ferðalög einkum bundin við þann tíma. Þá kemur meirihluti ferðamanna sem landið sækja heim þótt mikil breyting hafi átt sér stað, einkum hvað varðar suð-vesturhornið og Suðurland.

20.10 2017 - Föstudagur

690 Vopnafjörður í Bíó Paradís – sýnd á FIPA í Frakklandi

Heimildarmyndin 690 Vopnafjörður verður tekin til sýninga í Bíó Paradís í Reykjavík, sú fyrsta verður fimmtudaginn 26. október nk. Þar verða Karna Sigurðardóttir leikstjóri myndarinnar og Sebastian Ziegler myndasmiður til svars en frá því að myndin var frumsýnd þann 28. maí sl. hefur hún tekið nokkrum breytingum þótt hún sé í megindráttum hin sama. Að lokinni sýningunni býðst gestum að hittast í kaffihúsi Paradísarbíós og spjalla um vopnfirskt mannlíf, myndina, lífið og tilveruna. Myndin hefur verið valin til sýninga á kvikmyndahátíðinni FIPA í Frakklandi og felst í því mikil upphefð.

20.10 2017 - Föstudagur

Enn dregst opnun Selárlaugar

Athygli er vakin á að frekari dráttur verðiur á opnun Selárlaugar en til stóð að opna laugina fyrir gestum í dag. Verða sundlaugargestir að sýna frekari þolinmæði en vonast er til að hægt verði að leysa upp komið vandamál í dag sem þýðir að laugin verður tilbúin á sunnudag fremur en á morgun. Það er auðvitað miður að staðan skuli vera með þessum hætti en ekki verður við öllu séð þótt ávallt reyni starfsmenn sitt ýtrasta til að tryggja að þjónustan sé í lagi.

19.10 2017 - Fimmtudagur

Kjörskrá vegna prestskosninga í Hofsprestakalli

Frá og með morgundeginum 20. október hefur verið opnað fyrir prestkosningu í Hofsprestakalli þar sem Þuríður Björg Wiium Árnadóttir er ein í kjöri. Kosningin er rafræn og mögulega þykir einhverjum það flækja málin – og ekki hafa allir aðgengi að tölvu. Þeir þurfa aðstoð og er óskandi að allir kjörgengir eigi þess kost að kjósa en þótt Þuríður Björg sé ein í kjöri þarf hún atkvæði íbúa, meirihluta greiddra atkvæða eins og það er skilgreint. Meðfylgjandi eru nánari upplýsingar fengnar á heimasíðu kirkjunnar, www.kirkjan.is

Veðrið núna

Skjaldþingsstaðir

kl. 03:00
Hitastig:
6,4 °C
Vindur:
2 m/s
Vindátt:
S
Veljum VopnafjörðTungumál


Skipta um leturstærð


LeitVisit Vopnafjörður

Flýtileiðir