Saga Einherja: Félagið sem byggði Selárlaug

21.08 2019 - Miðvikudagur

Meistaraflokkur Einherja 1977

Einherji-I´BV -003 (1).jpg  vopni_gamlebilder_einherji-skalli (1).jpgEinherji-I´BV -005.jpg

Saga Einherja: Félagið sem byggði Selárlaug

„Maður hefur verið með appelsínugult og grænt hjarta frá því maður var barn,“ segir Bjartur Aðalbjörnsson fyrirliði Einherja sem undanfarin misseri hefur verið að vinna í að skrásetja sögu Einherja.

„Saga Einherja hefur alltaf verið inná heimilinu. Pabbi [Aðalbjörn Björnsson] er náttúrulega annar leikjahæsti leikmaðurinn í sögu Einherja og sat í stjórn í 30-40 ár og maður var alltaf með þetta nálægt sér og ég fór að fá áhuga á sögu þeirra, þegar þeir voru að spila í næstefstu deild á níunda áratugnum. Svo vatt þetta bara upp á sig, ég fór að skoða þessar gömlu fundargerðarbækur og skrásetja þær og komst meðal annars að því að félagið var stofnað 1929 en ekki 1925 og vildi bara vita betur hvað félagið snérist um. Það eina sem maður vissi var frá fótboltanum frá árinu 1974 og ekkert meir,“ segir Bjartur.

„Svo fannst mér alltaf vanta skráningu hvað varðaði markaskorara og leikjafjölda og allt þetta, það hefur ekki verið haldið utan um söguna á neinn hátt, eins með ljósmyndir, það þurfti að koma þessu öllu í rétt form af því það er svo gríðarlega mikilvægt fyrir félag að hafa þetta allt á hreinu.“

En hversu langt er verkið komið?

„Ég er búinn að vera að dútla við þetta síðustu 2-3 ár að grafa upp heimildir og púsla þessu saman. Skrásetja sem mest og koma þessu öllu á öruggan stað. Í rauninni er staðan þannig að ég ætlaði að klára eitthvað fyrir 90 ára afmælið sem er á þessu ári. Svo sá ég bara að það var ekki gerlegt, þannig að ég hugsaði bara að ég myndi reyna að safna sem mestu og nota eitthvað núna á 90 ára afmælinu og svo myndi ég koma því í réttar hendur fyrir hundrað ára afmælið og þá væri sagan gefin út með einhverju móti.“

En hverjir eru hápunktarnir í sögu félagsins?

„Aðallega þessi fótboltasaga frá 1974, hún er náttúrulega stórmerkileg. Þetta gullaldarlið Einherja sem spilaði í sex tímabil í næstefstu deild á níunda áratugnum og var í raun hársbreidd frá því að komast upp í efstu deild árið 1986, með lið sem var bara skipað heimamönnum fyrir utan markmann og þjálfara. Vopnfirðingar vilja oft gera frekar lítið úr þessu og tala um þessi gullaldarár Einherja með háði, en þetta var bara svakalegur árangur sem menn náðu.“

Undanfarið hefur Bjartur verið að safna miklum fjölda gagna um sögu félagsins. „Maður er búinn að vera á héraðsskjalasafni Austurlands og verið í sambandi við fólk til að athuga hvort það sé með eitthvað í höndunum sem gæti nýst manni og ég fékk ljósmyndir frá Jóhanni Árnasyni og Rúnari Hreinssyni sem eru Vopnfirðingar. Þeir tóku mikið magn af myndum á áttunda og níunda áratugnum, ég fékk þar mörghundruð myndir til að skanna inn, það er rosalega gott að hafa það til varðveislu. Svo liggur maður bara á tímarit.is og vistar og hleður niður til að eiga þegar kemur að því að skrifa.“

En hvernig byrjaði þessi saga? „Ef maður skautar yfir söguna þá var þetta stofnað sem íþróttafélag 1929. Þá var nú bara verið að gera einhverjar Müllers-æfingar í félagsheimilinu, en svo voru stundaðar einhverjar frjálsar íþróttir og smá fótbolti og svo var þetta orðið dálítið málfundafélag þar sem var verið að ræða málin, lestur og fleira,“ segir Bjartur en bætir í lokin við einu minnst þekkta afreki Einherja.

„Það stærsta sem þetta félag hefur gert var þegar það byggði sundlaugina í Selárdal, það er fáránlegt að því sé ekki haldið betur til haga að Einherji hafi byggt þetta.“

Auk þess að skrifa sögu Einherja sér fyrirliðinn um heimasíðu félagsins og skrifar þar reglulega leiksýrslur. En hvernig fer það saman við spilamennskuna?

„Það kemur yfirleitt lítið inná heimasíðuna um leikina sem ég spila. Síðustu tvo leiki hef ég farið út af meiddur og þá hef ég getað skrifað aðeins nákvæmar. En maður þarf að passa sig, sérstaklega ef maður skorar sjálfur, að lýsa því ekki með of miklum glæsileika, frekar af hógværð.“
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir