Fréttir

19.01 2018 - Föstudagur

Vetrarveður framundan – þorri heilsar

Í spákortum Veðurstofu Íslands fyrir næstu viku er vetrarveðurs að vænta og þarf ekki að koma á óvart verandi mitt inn í janúar. Í dag er samkvæmt forna tímatalinu bóndadagur sem markar byrjun þorra en hann er merkilegur fyrir þær sakir að vera sá mánuður sem enn á sér stað í hugum okkar þökk sé einkum þorrablótshefð þjóðarinnar. Gera má ráð fyrir að kaldir vindar hafi oft blásið á þessum árstíma á Fróni og samkvæmt Veðurstofunni má jafnvel gera ráð fyrir leiðindaveðri í næstu viku en er aftur á móti ágætt í dag og á morgun.

16.01 2018 - Þriðjudagur

Þorrablót Vopnfirðinga

Í fornu íslensku tímatali var þorri fjórði mánuður vetrar. Hann hefst á föstudegi í 13. viku vetrar eða á tímabilinu 19.–25. janúar. Næstkomandi föstudag 19. jarnúar er bóndadagur svo sem fyrsti í þorra er gjarnan nefndur og þýðir einungis eitt, daginn eftir er þorrablót Vopnfirðinga. Má gera ráð fyrir að þétt verði bekkurinn skipaður í félagsheimilinu en ef það er einhver viðburður sem fólk almennt bíður eftir er það þorrablótið. Í dag kl. 16:00 opnar miðasalan í anddyri Miklagarðs og leikur ekki vafi á að þá verði þegar mættur álitlegur hópur fólks til miðakaupa en þótt mætt sé snemma verður enginn greinarmunur gerður á betri og almennum sætum! 

12.01 2018 - Föstudagur

Lækkun kosningaaldurs í 16 ár

Lagt er til að kosningaaldur til sveitarstjórna lækki úr 18 í 16 ár í frumvarpi sem er nú í umsagnarferli á Alþingi. Að frumvarpinu standa 15 þingmenn úr öllum þingflokkum. Á fundi sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps var málefnið til umræðu undir almenn mál, Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórnar, Þingskjal 40. Er skemmst frá því að segja að frumvarpið hlaut jákvæða efnismeðferð í sveitarstjórn.

10.01 2018 - Miðvikudagur

Fjárhagsáætlun sveitarfélagins til kynningar

Sveitarstjóri boðaði til almenns fundar um fjáhagsáætlun Vopnafjarðarhrepps fyrir árið 2018 í Kaupvangskaffi í gærkvöldi. Almennt virðist fólk ekki sýna málinu mikinn áhuga, allténd ber mætingin þess merki. Þeir sem á hinn bóginn mæta hafa þeim mun meiri áhuga og taka virkan þátt í samtalinu um fjármál sveitarfélagsins og framtíðarhugmyndir. Fylgdi sveitarstjóri málinu úr hlaði með slæðusýningu hvar helstu lykiltölur fjárhagsáætlunarinnar voru tilteknar ásamt framkvæmdaáætlun ársins.

 

09.01 2018 - Þriðjudagur

Bustarfell auglýsir starf framkvæmdastjóra

Stjórn Minjasafnsins á Bustarfelli í Vopnafirði auglýsir starf safnstjóra laust til umsóknar. Starfshlutfall 50%.

 

Safnstjóri starfar samkvæmt lögum um viðurkennd söfn. Æskilegt að viðkomandi hafi menntun eða reynslu á sviði safnamála.

08.01 2018 - Mánudagur

Jólin kvödd með eftirminnilegum hætti

Jólin eru að baki. Blessað jólaskrautið fór niður á velflestum heimilum landsins um helgina. Þegar skrautið hverfur finnum með áþreifanlegum hætti fyrir breytingunni en skjótt verður allt sem fyrr í hringiðu hvunndagsins. Þrettándinn var á laugardag og um langt árabil hefur sveitarfélagið boðið íbúum upp á bálköst og flugeldasýningu í tengslum við hann undir handarjarðri Kiwanis. Svo var sannarlega nú, sýningin hin glæsilegasta í tilefni 50 ára afmælis Kiwanisklúbbsins Öskju og hátíðarkaffið maður minn, það var stórglæsilegt!

08.01 2018 - Mánudagur

Fundarboð - kynning á fjárhagsáætlun 2018

Athygli er vakin á að sveitarstjóri hyggst kynna fjárhagsáætlun Vopnafjarðarhrepps fyrir árið 2018 í Kaupvangskaffi í kvöld frá og með kl. 20:00. Verður farið yfir helstu tölur, tekjur og gjöld - og er fundarmönnum frjálst að spyrja að kynningu lokinni. Eru allir velkomnir. 

05.01 2018 - Föstudagur

Jólin kveðja – þrettándinn á morgun

Á morgun er sjötti janúar, þrettándi dagur jóla. Frá og með morgundeginum munu þau ljós sem lýst hafa upp umhverfið sl. vikur hverfa og myrkur vetrarins grúfa sig yfir samfélagið að nýju. Hins vegar staðfesta tímamótin að daginn er tekið að lengja hænufet hvern dag. Að vanda eru jólin kvödd með bálkesti ofan Búðaraxlar, nú kl. 17:30, og flugeldasýningu Kiwanisklúbbsins Öskju sem fagnar 50 ára afmæli þennan dag. Auk flugeldasýningar, sem er viðameiri en ella, býður klúbburinn til kaffisamsætis í félagsheimilun Miklagarði milli kl. 15:00 – 17:00.

 

04.01 2018 - Fimmtudagur

Hjúkrunarheimilið Sundabúð leitar hjúkrunarfræðings

Hjúkrunarheimilið Sundabúð óskar eftir að ráða hjúkrunarfræðing til starfa. Mun viðkomandi leysa af deildarstjóra hjúkrunar fyrstu 10 mánuðina. Um er að ræða 80 % stöðu í vaktavinnu sem veitist frá 1. mars 2018 eða eftir samkomulagi. 

Hjúkrunarfræðingur sinnir almennum hjúkrunarstörfum á hjúkrunardeild og sem deildarstjóri ber hann ábyrgð á að starfað sé samkvæmt markmiðum heimilisins og lögum og reglugerðum og tekur virkan þátt í breytinga- og þróunarstarfi sem fer fram á deildinni.

31.12 2017 - Sunnudagur

Við áramót

Árið 2017 heyrir brátt sögunni til, 364 dagar og ½ sólarhringur betur er að baki og á morgun hefst niðurtalningin á nýjan leik. Árið var merkt átökum innanlands og utan. Ríkisstjórn Bjarna Ben var knúin til að segja af sér og boðað var til kosninga 3 árum fyrr en vera skyldi. Kosið var í október og nokkrum vikum síðar hafði verið mynduð ný ríkisstjórn undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur formanns Vg. Hinn nýi forseti vor hefur haft í nógu að snúast hinn pólitískaþátt starfsins og hefur sýnt að hann veldur starfi sínu með sóma. Vopnfirðingar geta litið sáttir um öxl og sem fyrr mótast niðurstaðan af gjöfulleika hafsins. Er full ástæða að horfa björtum augum til komandi árs.


13 - 22 af 1935
1 2 3 4 5 6 7 8 9 10  > 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir