Skammt til kosninga

28.05 2014 - Miðvikudagur

Íslendingar munu ganga að kjörborði næstkomandi laugardag þegar sveitarstjórnarkosningar fara fram í öllum sveitarfélögum landsins. Eins og ávallt munu breytingar eiga sér stað, það liggur í hlutarins eðli. Á Vopnafirði eru framboðin þrjú, voru 4 við síðustu kosningar, og þau eru Framsóknarflokkurinn og óháðir, Betra Sigtún og K, listi félagshyggju. Hafa framboðin kynnt stefnu sína með bæklingum og á Facebook síðum sínum.

Við síðustu kosningar kusu liðlega 73% kosningabærra Íslendinga en hlutfallið var hærra hér eins og títt er um fámennari sveitarfélög þó ekki sé það algilt. Kosningabaráttan hefur verið með hefðbundnum hætti og óhætt að segja að ekki sé hún hörð – framboðin kynna stefnu sína og öll hafa þau vilja til góðra verka. Almennt er fólk sammála að landsmálapólitík og sveitarstjórnar eigi ekki samleið, einkum eftir því sem samfélögin eru smærri. Stefnuskrár framboðanna sýna að hlutaðeigandi aðilar eru fremur sammála en ekki þó munur sé á einstökum áhersluþáttum.

Kosið verður í félagsheimilinu Miklagarði laugardaginn 31. maí n. k. og hefst kjörfundur kl. 10:00 og lýkur kl. 20:00. Að venju bjóða framboðin hverjum sem þiggja vill að líta inn í kaffisopa á kjördegi, bragða á kökum og tertum velunnara. Fyrir þann sem áhuga hefur stjórnmálum/kosningum er kjördagur merkisdagur og víst hlýtur hann að vera það, haldinn 4ða hvert ár.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir