Kórahátíð í Miklagarði

30.03 2017 - Fimmtudagur

Í gærkvöldi var boðið til tónaveislu í félagsheimilinu Miklagarði er kórar Vopnafjarðar héldu kórahátíð sína þetta vorið, mánuði fyrr en venja er svo sem fram kom í frétt hér að lútandi í aðdraganda tónleikanna. Það var góður hópur fólks sem nýtur þess að hlýða á kórsöng fluttan sem mætti til söngskemmtunarinnar og var vel í söng kóranna 3ja tekið, þ.e. barna-, kirkju- og karlakórs. Öllum kórunum stjórnar Stephen Yates og gætir þess hver og einn sem þátt tekur leggi sig fram svo sem kostur er. Framundan er kórferð á Höfn og óskandi er að Hafnarbúar svari kallinu jafn vel og heimamenn gerðu í gærkvöldi.

 

Má draga þá ályktun að tónleikarnir hafi tekist með ágætum því viðtökur tilheyrenda voru prýðisgóðar. Stephen ræddi við gesti og gerði það vel. Kynningin skiptir máli, hún er upplýsandi og eins er ágætt að fá svolitla hvíld á milli laga í alllöngu prógramminu. Sungu kórarnir allir saman eitt lag og kirkju- og karlakórinn Halleluja Leonards Coen. Af svip gesta að dæma að tónleikum loknum héldu þeir býsna sáttir úr húsi - fegnir að hafa gefið sér tóm til að gaumgæfa hvað vopnfirskt kórfólk er að sýsla.

 

Meðfylgjandi eru myndir tíðindamanns og Bjarts Aðalbjörnssonar.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir