Austurland.is opnar

03.04 2017 - Mánudagur

Frá því er greint á vefsíðu Austurbrúar að vefsíðan www.austurland.is hafi verið opnuð miðvikudaginn 22. mars sl. Þar segir að vefurinn veiti innsýn í mannlíf okkar og von þeirra er sú að með tímanum muni hann aðstoða fyrirtæki, sveitarfélög og Austfirðinga að þróa sameiginlega rödd Austurlands og leggja grunn að góðum áfangastað til að heimsækja, búa á og starfa í.

Það er Austurbrú á og rekur vefinn. Samhliða var hleypt af stokkunum nýju tímariti sem ber heitið „Think outside the circle“ og er einskonar málgagn Áfangastaðarins Austurlands.

Heimasíðunni er ætlað að vera gátt inn í Austurland og er fyrir alla þá sem vilja leita sér upplýsinga um búsetukosti svæðisins, atvinnu og fjárfestingamöguleika. Síðast en ekki síst er síðan gátt fyrir gestina okkar sem vilja heimsækja Austurland og fá nasasjón af austfirskum lífsstíl. Austurland.is mun einfalda fólki og fyrirtækjum að leita hagnýtra upplýsinga um Austurland. Gáttin mun spila stórt hlutverk í að þjónusta austfirsk fyrirtæki og sveitarfélög við að þróa sameiginlega rödd Austulands út á við og leggja grunn að stjórnun áfangastaðarins til framtíðar.

Samhliða opnun síðunnar var gefið fyrsta tölublað tímaritsins „Think outside the circle" sem hefur að geyma greinar um Austfirðinga og austfirskan lífstíl. Fjöldi manns hefur komið að vinnu við tímaritið og vefinn en hvorttveggja er liður í verkefninu Áfangastaðurinn Austurland sem Austurbrú hefur unnið að síðustu ár en það snýst m.a. um að þróa/hanna áfangastaðinn Austurland með það að markmiði að styrkja aðdráttarafl og samkeppnishæfni fjórðungsins, gera áætlun til lengri tíma með áherslu á sjálfbæran og arðbæran vöxt ferðaþjónustu og skapandi greina.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir