Áfangastaðurinn Austurland – Berghildur Fanney skrifar

04.04 2017 - Þriðjudagur

Um daginn var ég viðstödd þegar ný heimasíða Áfangastaðarins Austurlands, austurland.is, var opnuð með viðhöfn á Egilsstaðaflugvelli. Hugur minn fylltist stolti yfir því að hafa verið þátttakandi í því síðustu þrjú ár, að auka samvinnu sveitarfélaga á Austurlandi.  Auka samstöðuna, virðinguna fyrir hvort öðru og ýta undir stolt yfir því sem við eigum sameiginlegt, t.d.  því vali að búa á Austurlandi og fullvissuna um að þar sé gott að búa.  Ekki bara á einum stað á Austurlandi, heldur í öllum sveitarfélögum Austurlands.  Þar liggur galdurinn, að leggja sjálfhverfuna ofurlítið til hliðar, minnast góðra og gildra orða um að „sameinuð stöndum vér, sundruð föllum vér“.

 

Vinnan með Austurbrú, Daníel Byström  og fulltrúum sveitarfélaganna  ásamt fjölda annara Austfirðinga  þessi ár hefur verið afskaplega gefandi og skemmtileg  þó að á stundum hafi hver og einn þátttakandi þurft að minna sig á af hverju við byrjuðum á þessu, af hverju þetta samstarf við að markaðssetja  allt Austurland saman í stað þess að beina kröftum og fjármagni í að auglýsa hvert og eitt samfélag  fyrir sig.

 

IMG_8270.JPGSvarið við því er að sjálfsögðu margþætt en í örfáum orðum og á mjög einfaldaðan hátt má lýsa því þannig að ekki er hægt að auglýsa Minjasafnið á Bustarfelli öðruvísi en fólk viti hvar Vopnafjörður er og harla erfitt er að auglýsa Vopnafjörð nema fólk viti hvað Austurland stendur fyrir.  Sömuleiðis er Austurland háð því að einhverjir kynni Ísland sem ákjósanlegan áfangastað gesta.  Þetta er eins og með hverja aðra keðju, við verðum aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn.

 

Önnur staðreynd sem við þurftum reglulega að minna okkur á er hvað „samvinna í samkeppni“ þýðir. Bestu vinir geta keppt í sömu íþróttagrein og annar sigrað  hinn  án þess að vináttan beri nokkurn skaða af.  Þeir þjálfa saman, skiptast á þekkingu um hvernig þeir eiga að verða betri, hvetja hvern annan, spara jafnvel með því að vera báðir með sama þjálfarann, fagna saman og gráta ósigrana saman.

 

Í einfaldaðri mynd má segja að þetta sé sá árangur sem verkefnið  Áfangastaðurinn Austurland er nú  að ná.  Við gerum  hlutina saman en sá sem nær að tileinka sér og nýta  flesta þættina úr góðu samstarfi sigrar með því að fleiri gestir velji viðkomandi, og við hin samgleðjumst og æfum betur til að ná enn betri árangri næst. Ávinningur samvinnu er  t.d. að byggja upp ný viðskipti, öðlast ný markaðstækifæri, nýta hæfni þekkingu og getu samstarfsaðilann við að ná betri árangri og ná meiri viðskiptavild með hagkvæmni stærðarinnar. Nú þegar við höfum náð þessum árangri í samvinnu hér á Austurlandi, verður hver og einn að muna að „æfingin skapar meistarann“.

 

Austfirðingar allir, ég óska ykkur af heilum hug, til hamingju með árangurinn sem hefur náðst.  Nú hefjast æfingar með sameiginlegum þjálfara.  Áfram austurland.is.

 

Berghildur Fanney Hauksdóttir

Ferða- og menningarfulltrúi Vopnafjarðarhrepps.

 

Meðfylgjandi eru myndir er vefurinn var opnaður miðvikudaginn 22. mars sl. 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir