Austurbrú ses

07.04 2017 - Föstudagur

Á síðasta fundi hreppsnefndar sem haldinn var í gær, fimmtudaginn 06. apríl, var tekinn til afgreiðslu þjónustu- og samstarfssamingur milli Vopnafjarðarhrepps og Austurbúar ses. Að umræðu lokinni samþykkti sveitarstjórn samhljóða að sveitarstjóri undirriti samstarfssamninginn en Vopnafjarðarhreppur er einn stofnaðila stofnunarinnar. Fram kom í umræðunni að full þörf væri fyrir frekari kynningu á Austurbrú ses svo fólk almennt átti sig betur á hvað býr að baki nafninu sem ber æði oft á góma og er m.a. með starfsstöð á Vopnafirði.

 

Á vefsíðu Austurbrúar, www.austubru.is, eru ítarlegar upplýsingar að finna. Um hlutverk þess segir að Austurbrú vinni að hagsmunamálum íbúa á Austurlandi og veitir samræmda og þverfaglega þjónustu tengda atvinnulífi, menntun og menningu. Stofnunin er í forsvari fyrir þróun samfélags, atvinnulífs, háskólanáms, símenntunar, rannsókna og menningarstarfs á Austurlandi.

 

Í Austurbrú er deigla fyrir ólík sjónarmið, nýbreytni og þor til að takast á við áskoranir og reyna nýjar leiðir að sameiginlegu marki. Þar er opinn vettvangur skoðanaskipta og virðing sýnd í öllum samskiptum. Austurbrú ræktar starfsfólk sitt og ýtir undir að það vaxi í starfi. Fjölhæfni í menntun, reynslu og hæfileikum starfsfólks gerir það að verkum að stofnunin er vel í stakk búin að takast á við flókin viðfangsefni sem spanna vítt svið.

 

Til frekari glöggvunar er vísað á tengil með nafni stofnunarinnar undir „Stjórnsýsla“ hér á heimasíðu Vopnafjarðar – og þaðan áfram á heimasíðu Austurbrúar þar sem allar upplýsingar um stofnunina er að finna.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir