Veljum Vopnafjörð - málþing 27. apríl nk.

19.04 2017 - Miðvikudagur

Í þessum mánuði er ár liðið frá íbúaþinginu, sem markaði upphaf að verkefninu „Veljum Vopnafjörð“.  Skilaboð íbúa voru dregin saman í þrjú orð, „Yngri, kraftmeiri og fjölbreyttari Vopnafjörður“.  Frá upphafi stóð til að verkefnið stæði í eitt ár og nú verður hringnum lokað með málþingi fimmtudaginn 27. apríl næstkomandi.

Á málþinginu segja þrír ungir Vopnfirðingar frá sinni sýn á heimabyggðina. Þau hafa öll farið að heiman til náms en ekki öll snúið til baka – að minnsta kosti ekki ennþá. Þetta eru þau Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur í greiningardeild Arion banka, Egill Gautason, landbúnaðarfræðingur og Þuríður Björg W. Árnadóttir, mag.theol.nemi. Einnig mun Margrét Gauja Magnúsdóttir, kennari og bæjarfulltrúi fjalla um lýðræðisvitund og valdeflingu ungs fólks. Að erindum loknum verða umræður, „Yngri, kraftmeiri og fjölbreyttari Vopnafjörður – hvernig komumst við þangað?“ 

IMG_8693.JPGVopnfjarðarhreppur stendur að verkefninu, í samstarfi við Austurbrú og Byggðastofnun og eiga þessir aðilar fulltrúa í verkefnisstjórn, auk þess sem þar situr einn fulltrúi íbúa. Á málþinginu mun Ólafur Áki Ragnarsson, sveitarstjóri, segja frá verkefninu og því sem unnið hefur verið að og setja byggðaþróun Vopnafjarðar í stærra samhengi.

Verkefnisstjórn hefur haft það að leiðarljósi að vinna með frumkvöðlum og sérstaklega með ungu fólki, enda þegar þátttakendur á íbúaþingi forgangsröðuðu málefnum í lok þings, var það „Fjölgun ungs fólks 20 – 40 ára“ sem fólk taldi allra mikilvægast. 

Málþingið verður fimmtudaginn 27. apríl, frá kl. 16 – 18.30, í Miklagarði.  Sjá dagskrána hér:  Veljum Vopnafjo¨rð_Ma´lþing.pdf

Yfirlit um þau verkefni sem unnið hefur verið að og verða unnin má sjá í Stefnuplaggi hér: Stefnuplagg-2017-170410.pdf

Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir