Gleðilegt sumar - þökk fyrir veturinn

20.04 2017 - Fimmtudagur

Sumardagurinn fyrsti er í dag, 20. apríl og árið er 2017. Samkvæmt gamla tímatalinu er hann fyrsti dagur Hörpu, hver hefst á næsta fimmtudegi eftir 18. apríl og er fyrstur af sex sumarmánuðum í gamla norræna tímatalinu. Sumardaginn fyrsta ber alltaf upp á fimmtudag á tímabilinu frá 19.-25. apríl. Sumardagurinn fyrsti var lengi messudagur eða til 1744. Þeir munu vera fáir oðrnir sem minni hafa af því. En sumarið er sum sé komið – tökum því fagnandi!

Íslensk þjóðtrú segir að ef sumar og vetur frjósi saman boði það gott sumar, en með því er átt við að hiti fari niður fyrir frostmark aðfararnótt sumardagsins fyrsta. Síðastliðið sumar hófst með ódælli tíð, snjóaði mikið og fátt sem minnti á sumarkomu. Hefði einhver geta dregið þá ályktun að framundan væri tíð mildra daga og bjartra svona í ljósi þjóðtrúar. Sumarið var í meðallagi gott en tók öðrum fram sem á undan gengu að maí var mildur og bauð ekki upp á kuldakafla – og júní hlýrri en við eigum að venjast. Um veðrið fáum við ekkert ráðið þótt vissulega hafi mannskepnan með athöfnum sínum valdið veðrabreytingum á jörðu og er svo komið að fátt minnir á fyrri tíð en það er annað mál og stærra. Raunar má vænta að veturinn sem við kvöddum í gær fari í sögubækur þar eð hann var óvenju mildur og snjóléttur.

Hvað átt er við með góðu sumri í þjóðtrúnni er nokkuð á reiki en hugsanlega er einkum átt við að nyt búpenings verði góð, sem verður þegar taðan er kjarnmikil. Ef engjar og tún eru seinsprottin verða hey oft kjarngóð og því ætti nytin einnig að verða góð. Slíkt gerist þegar svalt er og vott framan af sumri en síðan hlýrra og þurrt. Kann þjóðtrúin að vísa til þess að þegar vorið er kalt þá er oftast frost á sumardaginn fyrsta sem leiðir líkum að því að sumarið verði seinna á ferðinni. Þá er allur gróður einnig seinni að taka við sér, en það gerir grösin kjarnbetri og bætir nyt búpenings.

IMG_0339.JPGFyrir okkur Frónbúa er það ætíð jafn spennandi að velta veðrinu fyrir okkur, fáar þjóðir eru jafn uppteknar af umræðunni þó því verði ekki haldið fram að veðrið sé mýmörgum öðrum þjóðum hugleikið. Auðvitað, við eigum allt okkar undir veðrinu þó tímarnir hafi vissulega breyst en aldrei meira en svo að gróður jarðar er ávallt í sömu þörf fyrir að í veðrahvolfinu verði til kraftar honum þóknanlegur. Allténd hefur matið breyst stórum þegar um gott sumar er talað þó bændur, íslenskir sem aðrir, líti til sömu þátta og fyrr, sbr. ofan, að einhverju leyti. Við hin viljum sjá sem mest af blessaðri sólinni og hlýja vinda kyssa vanga því sjaldan býðst nú blessað lognið.

En alla vega, sumarið er komið og nú er um að gera að njóta þess þar sem sunnanþeyr strýkur vanga, langar bjartar nætur gefa tilefni til vöku í góðum hópi og glaðlegur fuglasöngur nærir sálina. Gleðilegt sumar góðir hálsar!
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir