Fyrsti maí

02.05 2017 - Þriðjudagur

Vopnfirðingar héldu 01. maí hátíðlegan venju samkvæmt en hafi kröfuganga verið deginum tengd er sú hefð að baki. Hins vegar fjölmenna íbúar sveitarfélagsins í félagsheimilið í boði starfsmannafélagsins Afls þar sem gesta bíður m.a. glæsilegt kaffihlaðborð kvenfélagskvenna en ekki síður dagskrá á vegum Afls. Að þessu sinni söng Karlakór Vopnafjarðar nokkur lög, þau hin sömu og á Heklumóti þann 22. apríl sl. Ræðumaður dagsins var Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir formaður Afls.

 

Í ávarpi Hjördísar Þóru var á það minnt að þótt Ísland státi almennt af velmegun eru það allstór hópur sem á við sárt að binda. Á Íslandi er til fátækt þótt hún sé síður rædd og nú þegar húsnæðisverð hefur líklega aldrei verið hærra verður æ erfiðara að lifa á Íslandi. Ekkert hefur breyst viðvíkjandi lánamál, há vaxtakjör eru að sliga fólk og þótt flestir hafi vinnu eru laun lágtekjufólks svo lág að þau gera varla betur en atvinnuleysisbætur. Vorum við á það minnt að við megun aldrei sofna á verðinum. Að afloknu ávarpi bauðst gestum að ganga að hlaðborðinu glæsilega og á meðan gestir nutu rétta kostanna lék hljómsveitin Batteríið ljúfa tónlist og áttu sinn stóra þátt í að skapa notalega stemningu í sal Miklagarðs.

 

IMG_5413.JPGAllt frá 1889 hefur 01. maí verið skilgreindur sem dagur verkalýðs og hafa Íslendingar fagnað deginum frá 1923 er fyrsta kröfugangan var farin. Dagurinn varð hins vegar fyrst lögskipaður frídagur hér á landi árið 1972 en til samanburðar má geta þess að ríkisstjórn jafnaðarmanna í Svíþjóð gerði daginn að frídegi árið 1938. Fyrsti maí er hátíðisdagur verkalýðsins um leið og hann er alþjóðlegur baráttudagur þess.

 

Meðfylgjandi eru myndir tíðindamanns af viðburðinum í félagsheimilinu.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir