Félagasamtök afhentu Slökkviliði Vopnafjarðar Lúkas hjartahnoðtæki

05.05 2017 - Föstudagur

Slökkvilið Vopnafjarðar hefur eignast hjartahnoðtækið Lúkas, Lucas 3, en tækið fékk liðið afhent þann annan maí sl. Mun það breyta miklu að Vopnfirðingar skuli hafa eignast tækið en hið sjálfvirka hjartahnoðtæki beitir hjartahnoði með ákveðnum þrýstingi hvort sem tækið er tengt við rafmagn, í bílahleðslutæki eða notar orku frá rafhlöðu. Með notkun tækisins skapast mun betra rými fyrir bráðaliða við endurlífgun sjúklinga til dæmis þegar veita þarf öndunaraðstoð og lyfjagjöf samhliða því sem tækið er að hnoða. Við þessi tímamót fluttu ávörp Kristrún Ósk, Baldur læknir og Sölvi Kristinn.

 

Víða um land hefur verið safnað fyrir hjartahnoðtækjum undanfarin ár og sum sé komið að okkur nú, þökk sé frumkæði félagasamtaka á staðnum auk velvildar einstaklinga og fyrirtækja. Þarf ekki að orðlengja að hnoð hins sjálfvirka tækis er mun árangursríkara en nokkur maður getur veitt og þreytist að sjálfsögðu ekki. Það er talið að almennt geti maður hnoðað í 2 mínútur áður en hlutaðeigandi þreytist og átakið breytist. Lucas er ekki fyrir öðrum við endurlífgun en með notkun þess skapast mun betra rými fyrir bráðaliða sem fyrr greinir. Þess má geta að svona tæki kostar á 3ju milljón krónur en afsláttur er veittur til félagasamtaka og nutu Vopnfirðingar þess.

 

Þau félagasamtök sem söfnuninni stóðu voru: Kvenfélagið Lindin, Björgunarsveitin Vopni, Slysavarnardeildin Sjöfn, Kiwanisklúbburinn Askja og Ungmennafélagið Einherji. Stóðu félagasmatökin fyrir söfnunar- og kynningardegi sem þótti ganga vel. Er áhugi fyrir að koma slíkum degi á aftur og gera helst árlega. Einnig lögðu málinu lið með myndarlegum hætti HB Grandi og Vopnafjarðarhreppur.

Meðfylgjandi eru myndir frá afhendingu Lucas 3 í slökkvistöð Vopnafjarðar.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir