Vopnfirðingar koma víða við um helgina

18.05 2017 - Fimmtudagur

Framundan er á margan hátt annasöm helgi hvað Vopnfirðinga áhrærir. Um síðastliðna helgi hófst Íslandsmótið í knattspyrnu þar sem Einherji á lið í karla- og kvennaflokki og um helgina eru bæði liðin í eldlínunni. Á laugardag, þ.e. 20. maí, er málþing í safnaðarheimilinu og um kvöldið eiga konurnar félagsheimilið á konukvöldi. Um aðra helgi stendur Einherji að styrktarkvöldi og þá helgi leika báðir meistaraflokkar félagsins sína fyrstu heimaleiki á Vopnafjarðarvelli.

 

Annað kvöld kl. 19:15 er blásið til leiks á Húsavík í 2. deild kvenna þegar lið Einherja sækir Völsung heim. Einherjastúlkur gerðu 1:1 jafntefli við Fjarðabyggð/Leikni/Hött í fyrsta leik sínum en Völsungur hefur þegar leikið 2 leiki, unnið og tapað. Má búast við hörkuleik en lið Völsungs hefur styrkst á milli ára og okkar að því leyti að stelpurnar búa yfir aukinni reynslu. Leiðin norður er ekki lengri en svo að gerlegt er að aka og hvetja okkar stúlkur áfram. Karlalið Einherja á einnig útileik en sá er á Suðurnesjum gegn líklega einu alsterkasta liði 3. deildar, Þrótti Vogum. Byrjuðu bæði lið keppnina með sigri um síðustu helgi, vann Einherji sigur á Reyni Sandgerði 4:0 og Þróttur lagði Berserki 2:0.

 

IMG_1687.JPGLíkt og greint var frá sl. mánudag er málþing haldið í safnaðarheimilinu á laugardag, Hafið, fjaran og fólkið, nefnist það og er áætlað að standi í 3 klukkustundir og hefst kl. 14:00. Er það Vitafélagið – íslensk strandmenning - sem stendur að málþinginu en framsögu flytja m.a. Ólafur Áki Ragnarsson, Magnús Þór Róbertsson og Hólmar Bjarki W. Bárðarson – fundarstjóri er Sigríður Bragadóttir. Um kvöldið er konukvöld í Miklagarði með Björk Jakobsdóttur sem veislustýru og Steini Bjarka og Rúnar Eff munu tryggja stuðið. Nánar um viðburðina á www.visitvopnafjordur.com
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir