Skilaboð hópa á málþingi „Veljum Vopnafjörð“

30.06 2017 - Föstudagur

Í apríl síðastliðnum var eitt ár liðið frá því að verkefnið sem nafnið hlaut „Veljum Vopnafjörð“ hófst með íbúaþingi. Stóð til frá öndverðu að verkefnið myndi standa yfir í eitt ár og lauk formlega með málþingi hinn 27. apríl sl. Á því þingi höfðu 3 ungir Vopnfirðingar framsögu og lýstu sýn sinni á heimabyggðina. Þau eru Konráð S. Guðjónsson, Egill Gautason og Þuríður W. Árnadóttir. Allt verkferlið var skipulega skráð og er samantekt skilaboða hópanna á málþinginu að finna hér á heimasíðu Vopnafjarðar undir verkefnisheitinu. Er þar auk heldur að finna allt sem málið varðar en fyrir þátttakendur er að baki sérlega ánægjulegt og gefandi ferli.

 

Í lokaorðum samantektarinnar segir m.a. að verkefnastjórn hafi haft að leiðarljósi að vinna með frumkvöðlum og sérstaklega með ungu fólki. Ekki að undra þegar þess er gætt að flestir forgangsröðuðu málefnum ungs fólks efst, leita skuli leiða að laða til Vopnafjarðar ungt fólk. Verkefnastjórnin mun áfram vinna frekar úr skilaboðum málþingsins og mun hún skila af sér verki sínu með vinnufundi með sveitarstjórn á komandi hausti í tengslum við fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Er full ástæða til að vera bjartsýnn á að verkefnið muni leiða af sér góða hluti og nú þegar við erum komin af stað er rétt að halda áfram á markaðri braut samvinnu og –stöðu.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir