Eldri borgarar í Djúpavogsferð

03.07 2017 - Mánudagur

Hópur eldri borgara á Vopnafirði hélt til suðurs þann 28. júní sl. og var haldið yfir Öxi til Djúpavogs. Með hópnum fór sveitarstjóri okkar og Djúpavogsbúinn Ólafur Áki en segja má að hann þekki hverja þúfu og stein í sveitarfélaginu enda allt í senn fæddur á staðnum og uppalinn, sveitarstjóri um árabil og göngumaður mikill. Varla hafa þau getað fengið betri mann til leiðsagnar og var á félögum að heyra að ferðin hafi verið bæði einkar ánægjuleg og upplýsandi.

 

Veður var með besta móti og það eitt út af fyrir sig skiptir miklu máli eigi náttúrunnar að njóta. Fyrsta stopp var ofarlega í Öxi, áð við Folaldafoss og greindi leiðsegjandi frá því sem fyrir augu bar en þeir sem um Öxi fara vita að náttúrufegurðin er sláandi. Ekið var áfram til Djúpavogs og var fyrsti viðkomustaður skógræktin sunnan þéttbýlis. Þar er að vaxa upp fallegur trjálundur með fagurlega myndaða kletta í bakgrunni. Styttan af þeim heiðursmanni Eysteini Jónssyni var að sjálfsögðu heimsótt sem og æskuheimili hans Hraun en húsið stendur í þorpinu og lætur lítið yfir sér.

 

IMG_1275.JPGGeysir heitir hús og hýsir skrifstofu sveitarfélagsins, einkar fallegt hús sem endurgert var og er mikil bæjarprýði. Var húsið skoðað hið ytra en Langabúð, elsta hús sveitarfélagsins byggt 1790, var skoðað utan sem innan. Er húsið mikil bygging og fjölsótt en þar er m.a. að finna Eysteinsstofu, safn Ríkharðs Jónssonar og kaffihús. Eggin í Gleðivík voru skoðuð sem og steinasafn Auðuns uns haldið var á Hótel Framtíð þar sem hópurinn naut fyrirmyndar móttöku og viðurgjörnings.

Meðfylgjandi eru myndir Ólafs Áka auk nokkurra fengnar af Veraldarvefnum.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir