Fræðst um umhirðu golf- og íþróttavalla

14.07 2017 - Föstudagur

Til eru samtök á Íslandi sem bera skammstöfunina SÍGÍ sem stendur fyrir Samtök íþrótta- og golfvallastarfsmanna á Íslandi og buðu upp á námskeið á Egilsstöðum í gær. Til Egilsstaða mættu þeir Einar Gestur Jónasson vallarstjóri Golfvallar Mosfellsbæjar og Kristinn Vilhjálmur Jóhannsson vallarstjóri Laugardalsvallar. Starfstitlar þeirra félaga segja söguna langt í frá alla því þessir tveir ungu menn hafa til að bera yfirgripsmikla þekkingu á uppbyggingu og umhirðu íþrótta- og golfvalla – virtist engu skipta hvað spurt var um svör áttu þeir alltaf. Námskeiðið sóttu 8 karlar af Austurlandi, Oddur Pétur og Magnús Már frá Vopnafirði en auk þeirra komu fulltrúar frá Fjarðabyggð, Seyðisfirði og Egilsstöðum. Voru þátttakendur á einu máli um að deginum hefði verið einstaklega vel varið og fóru af námskeiði margs fróðari.

 

Um SÍGÍ segir Jóhann G. Kristinsson vallarstjóri Laugardalsvallar m.a.: SÍGÍ eru samtök sem telja nú ca. 120 félagsmenn sem sýnir að okkar starf er öflugt og gott og viljum við því halda áfram fram veginn og styrkja það enn frekar. Það eru margir félagar úr SÍGÍ af landsbyggðinni sem hafa verið duglegir að sækja fundi og ráðstefnur til Reykjavíkur. Okkur langar að koma til móts við ykkur og koma í heimsókn austur. Það er okkar von að þetta verði fyrsta heimsókn SÍGÍ af mörgum þar sem farið verður út á land með fundi, ráðstefnur og endurmenntun.

 

IMG_7596.JPGOg austur komu þeir Einar Gestur og Kristinn Vilhjálmur og í 6 klukkustundir áttu þeir athygli þátttakenda allra en námskeiðiðvar tvískipt; annars vegar framsöguerindi í félagsaðstöðu Hattar, þar sem  mönnum var frjálst að spjalla við þá undir erindum þeirra, og hins vegar vettvangsskoðun á Vilhjálmsvelli og golfvelli Héraðsmanna. Auk þessa voru vélar og tæki skoðuð. Hið góða við dag sem þennan er að hann skilur mikið eftir sig því þótt fræðin séu ansi flókin var framsögnin nógu skýr til að eftir situr aukin þekking og skilningur á viðfangsefninu. Það er með vellina eins og önnur mannanna verk að þeir kalla á stöðugt eftirlit og viðhald. Þá er betra að vita hvað gera skal hverju sinni.

 

Það væri að æra óstöðugan að fara í gegnum allt það sem um var rætt en verður e.t.v. gert á öðrum vettvangi. Eitt er vallaryfirborð annað er það sem undir því er en undirlagið grundvallar jú útkomuna. Margs er að gæta, það er grundvallaratriði að þekkja til áburðardreifingar, hvernig ber að haga slætti, söndun, vökvun, götun/töppun? Hvað er lóðskurður og kembing? Hvað er þæfi? Yfirsáning? Svo dæmi séu tekin en að sjálfsögðu fær sá sem námskeið sem þetta situr einungis yfirborðsþekkingu á fræðunum frá mönnum með margra ára reynslu og menntun. Nú vita menn allténd hvert á að leita þegar þörf er á sérfræðiþekkingu ásamt því að vita ögn meira eftir en áður.

 

Að lokum má víkja að upplýsandi umræðu um gervigrasvelli en í landi þar sem sumarið er eins og það er telja æ fleiri það ekki vera spurning um hvort heldur hvenær gervigrasi sé skipt út fyrir náttúrulegt. Gervigrasvöllur ca. 8.000 m2 kostar tæplega undir 220 m.kr. í framkvæmd. Það mun vera almennur misskilningur að viðhaldið sé minna á slíkum velli því t.a.m. þarf að  bursta slíkan völl a.m.k. 3 sinnum á viku. Eins er það álit þeirra sem gerst þekkja að stilla eigi í hóf æfingasókn á gervigrasi ekkert síður en náttúrulegs, það slitnar af álaginu. Gervigrasvellir eru velflestir með upphitun og völlum haldið þannig frotsfríum og auðum en kostnaðurinn getur farið úr böndunum. Endingartíminn er talinn vera 10 ár en fer eftir álagi og umhirðu – og þá þarf að endurnýja grasið og kostar um ¼ af upphaflegum kostnaði. Það eru margar breytur sem hafa þarf í huga áður en farið er af stað en víst líta gervigrasvellir vel út og hafa breytt forsendum til æfinga og keppni hér sem víða um heim. Sviðið hið sama en leikmyndin önnur.

Meðfylgjandi eru myndir tíðindamanns af námskeiðsdegi.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir