Kosið verður um prest í Hofsprestakalli

14.08 2017 - Mánudagur

Biskupsstofa hefur staðfest að almenn prestskosning verði um nýjan sóknarprest í Hofsprestakalli sem nær yfir Hofs-, Skeggjastaða- og Vopnafjarðarsóknir. Ekki hefur er enn ljóst hvenær verður kosið en nýr prestur á að taka við um miðjan október. Umsóknarfrestur er til 23. ágúst nk.

Aðspurður um málið sagði sóknarnefndarformaðurinn Ólafur Björgvin Valgeirsson að biskup hafi gefið út tilskipun um að kosið verði og í embættið verði skipað þann 15. október nk. Er presturinn ráðinn til 5 ára.

„Við þurftum 124 sóknarbörn til að geta kallað eftir prestskosningu á Vopnafirði en alls undirrituðu um 260 einstaklingar áskorunina, þar af voru 248 gildir eða helmingi fleiri en þurfti. Það sýnir að áhuginn er virkilega til staðar og fólk vill hafa sitt að segja um málið“, sagði Ólafur aðspurður og bætti við: „Kjörstjórn er þegar tekin til starfa samkvæmt lögum og reglum en ekki liggur fyrir hvernær kosið verður en umsóknarfrestur er til 23. ágúst næstkomandi. Síðan þurfa umsækjendur tíma til að kynna sig. Vígslubiskupskosningar syðra munu líklega tefja málið eitthvað þar eð kjörstjórn er upptekin við þær kosningar“. Taldi Ólafur að októberbyrjun væri sá tími sem horft yrði til þótt enn væri dagsetning ekki ákveðin.

IMG_9579 - Copy.JPGÍ auglýsingu biskups segir um prestsjörðina: Prestssetursjörðin Hof í Vopnafirði fylgir embættinu að undanskildum veiðihlunnindum jarðarinnar og þar er skrifstofa sóknarprests. Sóknarpresti er skylt að sitja prestssetrið og hafa umsjón með því. Fyrir liggur haldsbréf ásamt framkvæmdaáætlun hjá fasteignasviði Biskupsstofu. Sá sem skipaður er til embættisins undirritar haldsbréf áður en tekið er við prestssetrinu. Um prestssetrið gilda starfsreglur um prestssetur og aðrar fasteignir þjóðkirkjunnar nr. 950/2009.

Að prestsetrið skyldi hafa verið fært í þéttbýlið hafði Ólafur þetta að segja: „Samanber auglýsingu biskups hér að lútandi skal prestur sitja Hof, búseta í þorpinu var undantekning og öllum er kunnugt um af hverju. Á fjömennum sóknarnefndafundi þann 24. janúar síðasliðinn var samþykkt með nánast öllum greiddum atkvæðum að valkvætt yrði hvort búsetuskylda prests yrði í þéttbýli Vopnafjarðar eða á Hofi. Það gengur sum sé ekki eftir en einmitt á þessum fundi var samþykkt að boðað skyldi til prestskosninga sem fyrst og nú er málið á dagskrá“.

Staðan var auglýst eftir að sér Stefán Már Gunnlaugsson, sem verið hefur sóknarprestur frá árinu 2005, var skipaður héraðsprestur í Kjalarnesprestakalli. Allir umsækjendur um embættið sem uppfylla almenn skilyrði verða í kjöri. Málið er komið til kjörstjórnar svo sem fyrr greinir og það er hennar að ákveða kjördag.

Prestakallið samanstendur af Hofssókn með 136 sóknarbörn, Vopnafjarðarsókn með 511 og Skeggjastaðarsókn með 107. Á áðurnefndum fundi, haldinn í safnaðarheimilinu, var samþykkt að færa síðastnefndu sóknina frá Langanesprestakalli yfir í Hofsprestakall með miklum meirihluta greiddra atkvæða.

Þegar fyrir liggur ákvörðun um dagsetningu prestskosningu mun verða frá því greint hér á heimasíðu Vopnafjarðar.


Hér er að finna þarfagreiningu fyrir Hofsprestakall:

Þarfagreining fyrir Hofsprestakall - 2017.pdf

Save
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir