Vopnafjarðarskóli settur í dag

21.08 2017 - Mánudagur

Í dag verður Vopnafjarðarskóli settur í sal skólans. Starfsmenn hófu vinnu sína flestir í liðinni viku þar sem starfið var skipulagt en setning skólans markar ávallt tímamót. Frelsi sumarsins sem ungviðið hefur notið er að baki og við tekur skipulagt vetrarstarfið. Framundan er því tími skyldumætingar og skipulegs náms en þó frelsið sé yndislegt hefur stundartaflan sína augljósu kosti því meiri festa kemst á líf hlutaðeigandi.

Fram kemur á vef skólans að ákveðið hefur verið að nemendum Vopnafjarðarskóla verði boðið upp á ókeypis námsgögn á næsta skólaári. Því er foreldrum ráðlagt að sleppa innkaupum þeirra námsgagna sem hingað til hefur þurft að kaupa. Nánari upplýsingar verða birtar síðar.

Gjaldfrjáls námsgögn eru í samræmi við 28. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem var lögfestur á Íslandi 20. febrúar 2013. Því er ávinningur örútboðs þessa ekki aðeins fjárhagslegur fyrir sveitarfélögin heldur munu öll börn í sveitarfélögunum njóta jafnræðis í námi.

Þess má geta að ríflega tvöfalt fleiri sveitarfélög ætla að útvega grunnskólabörnum skólagögn s.s. ritföng og pappír án endurgjalds á nýhöfnu skólaári en gerðu það í fyrra, samtals 41 sveitarfélag. Þá ætla 17 sveitarfélög að draga úr kostnaðarþátttöku nemendanna vegna skólagagna. Þetta er niðurstaða könnunar Velferðarvaktarinnar sem Maskína framkvæmdi.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir