Íþróttahúsið opnar brátt á ný

22.08 2017 - Þriðjudagur

Gólf íþróttahúss Vopnafjarðar hefur verið endurnýjað svo sem frá hefur verið greint hér að gera skyldi. Fagmennirnir Björn og Gunnlaugur luku verki sínu um miðjan dag á sunnudag síðastliðinn en það er í mörg horn að líta þegar ráðist er í gólfefnaskipti íþróttahúss. Gamli dúkurinn var búinn að þjóna samfélaginu vel í 30 ár en var vissulega farinn að láta á sjá. Samþykkt var í sveitarstjórn á liðnu hausti að fara í þessa framkvæmd og má fullyrða að henni verði vel fagnað af notendum þegar húsið opnar í byrjun næstu viku.

Það þarf að vanda verk sem lengi skal standa og fast sat gamli dúkurinn. Með mikilli vinnu var hann fjarlægður og gólf hreinsað niður á steinsteypta plötuna. Reyndist hún í eins góðu ástandi og hægt var að gera sér vonir um en það er sannarlega ekki alltaf þannig farið. Þá koma til aukaverk sem lengir framkvæmdatímann en verkið tók alls 10 daga og 3j vikna lokun íþróttahússins, þ.e. salarins, vegna gólfefnaskipta telst vart langur tími eftir 30 ára linnulitla notkun.

IMG_8506.JPGVið verklok blasir við fallegt gólfið og lofar handverk þeirra Björns og Gunnlaugs en sá eldri þeirra tvímenninga reiknaði síður með að koma hingað aftur til gólfefnaskipta! Má gera ráð fyrir áratuga endingu þessa gólfs eins og þess sem fyrir var. Þeir vildu þeir félagar koma því á framfæri að hér á Vopnafirði hefðu þeir átt góða daga, áttu hér stórgott samstarf við okkar fólk og óskuðu Vopnfirðingum alls hins besta.

Meðfylgjandi eru myndir frá vinnu dúkara dagana 15. til og með 20. ágúst. sl. Ennfremur er vísað til fréttar hér að lútandi þann 16. ágúst sl.

Save
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir