Austfjarðatröllið og leikir Einherja

24.08 2017 - Fimmtudagur

Á morgun, föstudaginn 25. ágúst, munu kraftajötnar heilsa upp á Vopnfirðinga og keppa í tveimur keppnisgreinum í tengslum við aflraunakeppnina Austfjarðatröllið 2017. Af Íslendingum hafa löngum farið sögur af styrk þeirra og keppni er þeim í blóð borin. Hingað mætir fríður flokkur keppenda undir handleiðslu Magnúsar Vers fjórum sinnum heimsins sterkasti maður. Daginn eftir, laugardaginn 26. ágúst, er mikið um að vera á Vopnafjarðarvelli því báðir meistaraflokkar félagsins leika fótbolta þann dag, piltarnir fyrst frá og með kl. 13:00 og stúlkurnar hefja leik kl. 15:30.
Sem fyrr segir verður keppt í tveimur keppnisgreinum Austfjarðatröllsins á Vopnafirði í nálægð við Kaupvang. Annars vegar er keppt í kútakasti, hins vegar munu jötnarnir eiga við Atlassteininn. Áætlað er að keppnin hefjist kl. 11:30 föstudaginn 25. ágúst svo það sé ítrekað. Á laugardag ræður boltasparkið ríkjum því stuðningsfólki Einherja býðst fótbolti í að minnsta kosti 3 klukkustundir, kl. 13:00 hefst leikur Einherja og Berserkja í 3. deild karla og klukkan 15.30 etja stúlkurnar kappi við stöllur sínar frá Álftanesi. Hafa Vopnfirðingar verið duglegir að leggja leikmönnum sínum lið og má vænta að svo verði áfram en rétt eins og á sumarið er gengið fer leikjum flokkanna fækkandi.Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir