Fyrirlestur og sýningin Lausir endar

25.08 2017 - Föstudagur

Sýningin LAUSIR ENDAR var formlega opnuð síðastliðinn laugardag í safnaðarheimili Vopnafjarðarkirkju. Sýningin er afurð rannsóknaverkefnis Birgitar Lund fornleifafræðings og Ingridar Larssen listakonu frá Vesterålen í Noregi. Fyrir sýningaropnun hélt Birgit erindi í kirkjunni varðandi rannsóknir sínar á Álfkonudúknum og sambærilegum sem varðveittir eru í Giske og Kvernes í Noregi. Var Birgit til aðstoðar Elsa Guðný Björgvinsdóttir og flutti íslenska þýðingu á fyrirlestri Birgitar.
Birgit hefur sem fyrr greinir rannsakað mögulegan uppruna Álfkonudúksins frá Bustarfelli og Ingrid unnið ýmis verk innblásin af dúknum og Álfkonusteininum, sem stendur innan við Bustarfellsbæinn. Ingrid og Birgit komu einnig af stað samstarfsverkefni með börnum í Vopnafjarðarskóla og handverkskonum á staðnum.
Opnunina sóttu um 80 gestir. Stutt ávörp voru flutt áður en Álfkonudúkurinn og fiðrildateppið voru afhjúpuð. Ávörp fluttu: Unnur Ósk Unnsteinsdóttir formaður menningarmálanefndar, bauð hún viðstadda velkomna fyrir hönd Vopnafjarðarhrepps. Ingrid Larssen las eigið ljóð og þakkaði fyrir tækifærið sem í sýningunni felst og ekki síður samstarfið við börnin og handverkskonur. Ingrid hvatti Vopnfirðinga til áframhaldandi hönnunar og listsköpunar sem gæti verið t.a.m. innblásinn af Álfkonudúknum. Signý Ormarsdóttir menningarfulltrúi Austurbrúar greindi frá margra ára menningarsamstarfi milli Austurlands og Vesterålen og mikilvægi þess að tengja saman mismunandi menningarheima. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður þakkaði Vopnfirðingum fyrir framtakið. Þakkaði Margrét Fanneyju Hauksdóttur sérstaklega þrautseigju og dugnað við framkvæmd verkefnisins. Að lokum frumflutti Baldvin Eyjólfsson 3 eigin lög við ljóð skáldkonunnar Erlu (Guðfinnu Þorsteinsdóttur frá Teigi í Vopnafirði) og með honum söng Borghildur Sverrisdóttir.
Gestum gafst þarna einstakt tækifæri til að skoða Álfkonudúkinn, fiðrildadúkinn og listverk eftir Ingrid sem öll tengjast Álfkonusteininum. Niðurstöðurrannsókna Birgitar þar sem hún hefur borið saman tvo sambærilega dúka í Noregi eru teknar saman í ritinu LAUSIR ENDAR  - Fortíð og framtíð mætast. Þar greinir um leið frá sögu Álfkonudúksins. Ritið var til sölu á staðnum og er fáanlegt hjá Vopnafjarðarhreppi. Í tengslum við sýningaropnun safnaðarheimilinu bauð Vopnafjarðarhreppur gestum upp á hressingu.
Þess má að lokum geta að í dag kl. 10, föstudaginn 25. ágúst, munu þær Ingrid og Birgit greina nemendum og starfsfólki frá verkefnisvinnu þeirra og færa Vopnafjarðarskóla fiðrildardúk Ingridar að gjöf.
Frekari upplýsingar veitir Else Möller. else@austurbru.isTungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir