Almennar prestskosningar framundan í Hofsprestakalli

30.08 2017 - Miðvikudagur

Biskup Íslands auglýsti laust til umsóknar embætti sóknarprests í Hofsprestakalli, Austurlandsprófastsdæmi, þann 24. júlí 2017. Þann 6. ágúst sl. barst Biskupsstofu erindi formanns sóknarnefndar Vopnafjarðarsóknar, dags. sama dag, þar sem sett er fram beiðni um almennar prestskosningar til framangreinds embættis. Frá þessu var greint á hér þann 14. ágúst sl. en til þess að ná fram prestskosningu þurfti 124 sóknarbörn en undirskriftirnar urðu 248.

Að mati biskups Íslands uppfyllti beiðnin öll skilyrði sem sett eru í starfsreglum um val og veitingu prestsembætta nr. 144/2016. Kjörstjórn þjóðkirkjunnar við almennar prestskosningar var tilkynnt um framkomna beiðni með bréfi, dags. 10. ágúst 2017.

Umsóknarfrestur um embættið var til miðvikudagsins 23. ágúst sl. Tvær umsóknir bárust um embættið. Umsækjendur eru: Jarþrúður Árnadóttir, mag. theol. Þuríður Björg Wiium Árnadóttir, mag. theol. Umsækjendurnir brautskráðust úr starfsþjálfun þjóðkirkjunnar þann 27. júní sl. en allir þeir sem hyggjast starfa í kirkjunni ber skylda til fara í gegnum starfsþjálfun. Í henni felst m.a. persónuleikapróf, kyrrðardagar og þjálfun í söfnuði. Að þjálfun lokinni og brautskráningu frá HÍ öðlast nemandinn embættisgengi.

Ekki liggur fyrir hvenær kosið verður en skv. Ólafi B. Valgeirssyni sóknarnefndarformanni verður skipað í embættið þann 15. október nk. þannig að vænta má upplýsinga hér um innan tíðar.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir