Krummi gerir sig heimakominn við Selárlaug

05.09 2017 - Þriðjudagur

Hrafninn hefur löngum þótt athyglsiverður fugl, af honum fara þjóðsögur í íslenskum og erlendum þjóðsagnasöfnum og ritum um þjóðlegan fróðleik. Eru flestar tengdar spásagnargáfu hrafnsins og fjalla um hann sem feigðarboða. Mikil hjátrú er bundin við fuglinn og víðast hvar í heiminum er hann talinn illur fyrirboði, en það er langt í frá algilt. Undanfarið hefur hrafn nokkur verið æði þaulsetinn við Selárlaug en þessi athyglisverði fugl hefur náð góðum tengslum við starfsmenn laugarinnar, Przemek og Ewu, og vakið athygli gesta hennar.

Haft er fyrir satt að krummi einn fastagesta hafi sloppið við að greiða gjald fyrir veru sína og kannski er það fyrir þær sakir að hann nýtir ekki laugarvatnið heldur lætur sig nægja mannvirkin, byggingar og girðingar. Hrafninn er tilkomumikill fugl, ekki einungis fyrir þær sakir að hann er allt að 75 sm. hár – og vænghafið tvöfalt - heldur gefur svartur liturinn honum drungalegt yfirbragð. Um engan fugl annan hefur verið eins mikið samið og hver veit nema samið verði ljóð um krumma þann sem gert hefur sig heimakominn við Selárlaug en gáfaður fuglinn kemur sífellt á óvart með lund sinni og hegðan.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir af krumma sem þau Przemek og Ewa tóku á dögunum.

P.S. Meðan krummi kýs að halda við Selárlaug varð að samkomulagi að hann fengi það viðeigandi nafn Vopni með beina tilvísun í landnámsmanninn sögufræga. Megi Vopni eiga góða daga í sátt við gesti og starfsmenn Selárlaugar.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir