Vandi sauðfjárbænda til umræðu

11.09 2017 - Mánudagur

Umræðan um vanda sauðfjárbænda á Íslandi hefur ekki farið framhjá þeim sem með fréttum fylgjast. Málið er ekki nýtt af nálinni en svo virðist sem vandinn sé dýpri og alvarlegri nú en áður. Erfitt heftur reynst að stýra framleiðslunni því meðan eftirspurn eftir afurðum er af 400.000 lömbum hefur framleiðni bænda miðast við 600.000 lömb sem til slátrunar koma í haust. Sláturleyfishafar segja þörf á fækkun fjár um fimmtung og landbúnaðarráðherra hefur lagt fram tillögur til að mæta vanda bænda.

20% fækkun mun eðlilega hafa afleiðingar en eins og staðan er virðist ekki annað blasa við en sú leið sé hin eina færa. Það má auðveldlega færa fyrir því rök að vandi sauðfjárbænda sé byggðavandi því hluti bænda mun kjósa að bregða búi með tiheyrandi fækkun í hinum dreifðu byggðum. Þórunn Egilsdóttir bóndi á Hauksstöðum og þingmaður sagði á fundi austfirskra sauðfjárbænda þann 29. ágúst sl. að greiningu vanti á áhrifum fækkunar fjár og bænda. Staðan væri grafalvarleg og galið að hugsa sér til þess að búskapur leggist hér af, sagði Þórunn auk heldur á fundinum.

Sauðfé - 4.jpgHaraldur Benediktsson bóndi og þingmaður – og formaður fjárlaganefndar Alþingis - líkir tillögum landbúnaðarráðherra til lausnar á vanda sauðfjárbænda við „eyðibýlastefnu“ og segir það verða mikið vandaverk að útfæra það tilboð til bænda sem felist í tillögum ráðherrans um fækkun sauðfjárbænda. Í viðtali við Bændablaðið segist hann „óttast þessa fækkunarumræðu sem komin er í gang," segir hana gamaldags lausn sem lögð hafi verið niður 1995.

Kveðst Haraldur mun frekar hafa viljað sjá tilboð um tímabundna fækkun fjár. Hann segist ekki vilja útiloka starfslok einhverra bænda, en tryggja þurfi einhvern framtíðarrekstur á jörðum þeirra í staðinn. Í sjálfu sér skipti ekki höfuðmáli hvernig rekstur það verði, segir Haraldur, hann vilji bara „ekki meiri eyðibýlastefnu." Gagnrýnir hann ráðherra fyrir að hafa ekki náð samstöðu við bændur um nauðsynlegar aðgerðir.

Formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, Oddný Steina Valsdóttir, segir tillögur landbúnaðarráðherra um lausn á vanda sauðfjárbænda ekki taka heildstætt á vandanum og óttast að stærri bú og yngri bændur muni einna helst taka tilboðinu og bregða búi.

Kveðst Oddný Steina ekki gera sér enn grein fyrir því hvernig bændur hyggist bregðast við. Í tillögunum felist mikill hvati fyrir að sauðfjárbændur hætti búskap en minni hvati til að þeir fækki fé sem er á allan hátt samfélagslega betra. Þrátt fyrir að erfitt sé að ráða í stöðuna og spá í framtíðina óttast hún að það verði einna helst yngri bændur og stærri bú sem koma til með að taka tilboðinu og hætti sauðfjárbúskap, sagði Oddný Steina í samtali við Bændablaðið.

Sauðfé - 2.jpgEftir stendur þó að birgðasöfnun er til staðar en Ágúst Torfi Hauksson frkv.stj. Norðlenska og Skúli Þórðarson hjá Sláturfélagi Vopnfirðinga kváðust á áðurnefndum fundi ekki hafa áhyggjur af aukinni slátrun á fullorðnu fé í haust í því skyni að fækka fé en það kjöt verður selt ódýrt til að birgðaminnkunar.

Í gildi er búvörusamningur sem fyrri ríkisstjórn gerði. Hann er greiddur af skattgreiðendum en spurning er hvort gengið verður lengra, hvort bændur geti farið fram á frekari stuðning. Vandinn birtist víða, þannig er uppsafnað tap Norðlenska á sl. 3 árum 400 milljónir króna og deginum ljósara að stefnir í þrot án viðsnúnings. Hans er hins vegar ekki að finna eins og sakir standa því t.a.m. fæst nær ekkert fyrir kjöt sem flutt er úr landi vegna gengisþróunar. Birgðir sláturleyfishafa eru meiri en æskilegt væri og reksturinn er öfugu megin við núllið. Staðan er alvarleg og flókin því málið varðar afkomu þúsunda. Sama hvaða leið verður valin liggur fyrir að við horfum fram á breytta ásýnd í sveitum landsins.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir