Ungmennaráð Vopnafjarðar

28.09 2017 - Fimmtudagur

Ungmennaráð Vopnafjarðar kom saman til fyrsta fundar þann 26. september sl. Hlaut samþykkt um ungmennaráð sveitarfélagsins samhljóða atkvæði á fundi sveitarstjórnar hinn 23. mars sl. og til þess valdir fulltrúar í framhaldinu. Samkvæmt samþykkt fyrir ungmennaráð, sem tekur til 14-25 ára, er því ætlað að funda a.m.k. fjórum sinnum á hverju starfsári tímabilið 20. september til 01. júní. Á fyrsta fundi skyldi formaður og varaformaður kosin og fór svo að Einar Gunnlaugsson var kosinn formaður og María Björt Guðnadóttir til vara. Með ráðinu starfar æskulýðs- og íþróttafulltrúi Vopnafjarðarhrepps.

 

Saga ungmennaráða á Íslandi er ekki löng en fyrsta ungmennaráðið varð til í Reykjavík í tengslum við tilraunasveitarfélagsverkefni Miðgarðs í Grafarvogi 1998. Það lifði þó ekki lengi en árið 2001 varð Ungmennaráð Grafarvogs til og varð fyrirmynd annarra er síðar komu. Með nýju æskulýðslögunum sem gildi tóku 2007 tók ungmennaráðum að fjölga en í 11. gr. laganna segir að sveitarstjórnir skuli hlutast til um að stofnuð verði ungmennaráð til að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks. Lögð er áhersla á mikilvægi þess  að ungt fólk hafi tækifæri til að vera virkir þátttakendur í samfélagi sínu sem byggist á lýðræði og tækifærum til að koma að ákvörðunum er snerta líf þeirra.

 

Með stofnun ungmennaráða eru stjórnvöld að koma til móts við tilmæli um lýðræðislega þátttöku ungs fólks sem talar er um í Hvítbók framkvæmdastjórnar ESB og í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í Hvítbók segir að markmið hennar sé að fá ungt fólk til að vera þátttakendur í ákvarðanatöku innan sambandsins. Þar er tekið fram að ungt fólk hafi vilja og áhuga til að taka þátt en sækir það þó ekki í hefðbundin pólitísk öfl. Því er nauðsynlegt að búa til vettvang fyrir ungt fólk til að hafa áhrif og eru ungmennaráð m.a. vettvangur hér á landi. Í sáttmála SÞ er talað um rétt barna til að viðra skoðanir sínar og mikilvægi þess að aðildarríki tryggi börnum sínum rétt og aðstæður til að koma skoðunum sínum á framfæri.

 

Má gera ráð fyrir að framundan séu spennandi tímar fyrir fulltrúa ungmennaráðs því þau varða veginn fyrir þá sem eftir koma. Í raun byggist allt starfið á áhuga þeirra sem ráðið skipa hverju sinni en þess eru dæmi að sveitarfélag hafi gefist upp á að starfrækja ungmennaráð vegna áhugaleysis ungmenna. Samtímis sem áhugi hlutaðeigandi fulltrúa er lykillinn að starfi ungmennaráðs þarf samfélagið allt að sýna því skilning og áhuga – og þar er þáttur ráðamanna eðlilega afgerandi þáttur.

 

Meðfylgjandi eru myndir tíðindamanns frá fundinum.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir