Fundað um verndarsvæði í byggð

02.10 2017 - Mánudagur

Sveitarfélagið stóð að fundi um verndarsvæði í byggð sl. fimmtudagskvöld í félagsheimlinu. Sem kunnugt er fékk Vopnafjarðarhreppur úthlutaðan styrk úr húsfriðunarsjóði árið 2016 að upphæð samtals 8.5 milljónir króna og skilgreindist sem Verndarsvæði í byggð – Verdun gamallar götumyndar. Til fundarins var mætt sérfrótt fólk sem sveitarfélagið hefur ráðið í þeim tilgangi að vinna að þessu verkefni en niðurstaða gæti legið fyrir að ári liðnu.

 

Ólafur Áki opnaði fund með stuttu ávarpi þar sem hann greindi frá tilurð verkefnisins en það þótti nógu merkilegt til að hljóta náð fyrir augum sjóðsstjórnar og er nú smám saman að þokast af stað. Margrét Hrönn Hallmundsdóttir fornleifafræðingur flutti áhugavert erindi um starf fornleifafræðingsins en þar kom m.a. fram að starf þess sé langt í frá bundið við miðaldir því allt sem eldra er en 100 ára telst til fornleifa. Kvaðst Margrét sjálf hafa kosið að viðmiðið væri aldamótin 1900 en færist fram eftir því sem tíminn líður þar eð 100 ár er skilgreing tímamarkanna. Kvaðst Margrét vera að hefja verk sitt og kallaði eftir öllum þeim gögnum sem gætu orðið til upplýsinga og bað fólk um að hika ekki við að hafa samband, það yrði hennar að vega og meta gildi þeirra upplýsinga sem söfnuðust.

 

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir arkitekt hjá Yrki arkitektar fór nánar yfir verkefnið í heild sinni sem í stuttu máli felst í því í meginatriðum að skrásetja og leggja mat á gildi bygginga sem og annarra mannvistarmenja í sögulegu samhengi byggðarinnar. Velt var upp spurningunni hvers vegna skyldi sveitarfélag yfir höfuð leggja áherslu á byggðarverndun svo sem í skilgreiningunni felst? Í því felst m.a.:

a) menningarsögulegt gildi; saga menningar og lífshátta á fyrri tíð sem endurspeglast í manngerðu umhverfi á tilteknum stað. Gildi hennar felst m.a. í möguleika fólks til að upplifa og skynja áþreifanlega tengsl við liðna tíma og horfnar kynslóðir.

b) svipmót; einkennandi yfirbragð byggðar sem birtist m.a. í ríkjandi formgerðum húsa, afstöðu þeirra innbyrðis og rýmismyndun, stærðarhlutföllum, byggingarstíl, efnis- og litavali og sambandi byggðar og náttúrulegs umhverfis.

c) varðveislugildi; niðurstaða mats á mörgum mismunandi gildum sem áhrif geta haft á varðveislu byggðar, svo sem listrænu gildi, menningarsögulegu gildi, svipmóti, umhverfisgildi og upprunaleika.

 

Með þeim Margréti Hrönn og Sigurborgu Ósk var mætt til fundar Edda Þórsdóttir arkitekt hjá Yrki og er samstarfsmaður Sigurborgar í verkefninu og Stefán Guðnason hjá Bílum og vélum. Stefán er aðgengilegur íbúum viðvíkjandi verkefnið með staðsetningu á Vopnafirði og eru þeir sem telja sig geta veitt einhverjar upplýsingar að setja sig í samband við hann.

Meðfylgjandi eru myndir af fundinum.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir