Stefán Már kveður söfnuð sinn

05.10 2017 - Fimmtudagur

Séra Stefán Már Gunnlaugsson hélt sína kveðjumessu síðastliðinn sunnudag og var hingað mættur með fjölskyldu sína alla. Hún var hingað komin til að kveðja Vopnafjörð. Kveðjustund er í eðli sínu ljúfsár en leiðir vina munu liggja saman á komandi árum undir öðrum kringumstæðum. Stefán Már getur stoltur litið um öxl til áranna á Vopnafirði en staðurinn, samfélagið og náttúran eiga stað í hug þeirra og hjarta sem aldrei mun falla í gleymskunnar dá líkt og kom fram í orðræðu hans.
Í anda hins reynslu mikla prests var messan hnökralaus en samstarf þeirra Stephens Yates hefur allar götur gengið einkar vel. Þannig líður manni vel í messu hjá Stefáni Má, hann kann blönduna milli létt- og hátíðleika fullvel. Þegar kemur að prédikun eða hugleiðingu stendur hann fáum að baki, sú mannlega taug sem Stefán Már snertir iðulega er sannarlega ekki öllum gefið. Dæmisögur úr lífinu hefur hann sagt í gegnum árin og þar eð tíðindamaður hefur flestar messur setið kann hann þær margar. Í kveðjumessunni greindi hann frá skemmtilegri lítlli sögu.
Staddur á skólalóðinni kom til hans lítill snáði, „Hæ, Jesús – ég meina prestur, ég man eftir þér. Ég man þegar þú komst í leikskólann okkar og last fyrir okkur sögur um Jesús. Hvenær kemurðu til okkra aftur?“ Einlægt og hreint barns hjartað. Í hugleiðingu sinni þakkaði Stefán Már fyrir sig og sína fjölskyldu sem hér átti góða daga. Vopnafjörður hafi heilsað henni eins og hann kvaddi með yndislegu björtu veðri og þannig myndu þau varðveita myndina af staðnum í hjarta sér. Samskipti við heimamenn hefðu verið frá fyrsta degi góð, þau hefðu strax fundið sig heimakomin. Þakkaði hann samstarfið við tiltekinn hóp einstaklinga sem mest höfðu með honum starfað, samstarf við félagasamtök og sveitarfélagið en að sjálfsögðu stóð honum næst að nefna þá sem komið höfðu að kirkjustarfinu á þessum árum. Að lokum þakkaði hann Stephen framúrskarandi samstarf og kirkjukónum yndislegan sönginn í gegnum árin.
Að lokinni messu var boðið til kaffisamsætis í safnaðarheimilinu þar sem gafst tóm til að setjast niður og skrafa um stund. Myndir voru teknar af fjölskyldunni og síðan var ekkert eftir nema að þakka fyrir sig og kveðja prest sinn – og hinkra eftir þeim sem viðtekur.Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir