Listafólk sækir Vopnafjörð heim

04.10 2017 - Miðvikudagur

Það er gestkvæmt á Vopnafirði þessa dagana en annars vegar eru komin frá Þýskalandi Brynjar Sigurðsson vöruhönnuður og kona hans og samstarfsmaður Veronika Sedlmair, hins vegar Svein Eirik Töien og Marie Elisabeth Mjaaland er koma frá Noregi. Svein Eirik er arkitekt og ljósmyndari, Marie Elisabeth viðskiptafræðingur og prestur með gráðu í heimspeki.

Brynjar og Veronica munu dvelja hér þessa vikuna og vinna að gerð umhverfislistaverka á Vopnafirði og nágrenni og munu njóta aðstoðar fyrirtækja og einstaklinga á staðnum ásamt stuðningi sveitarfélagsins. Brynjar er Vopnfirðingum að góðu kunnur og raunar hefur Veronika einnig átt viðdvöl hér áður og þekkja þau því umhverfið orðið býsna vel. Brynjar tengdist m.a. sýningunni „Designs from Nowhere“ sem Karna Sigurðardóttir hefur leitt og mun ásamt þeim Brynjari og Veroniku kynna verkefnavinnu þeirra nánar á opnum fundi í Kaupvangskaffi þann 05. október nk. kl. 20:00.

Svein Erik og Marie Elisabeth.pngSvein Eirik Töien og Marie Elisabeth Mjaaland koma frá Nyksundeyju í Vesterålen en í smábænum Nyksund búa nú um 20 manns. Eyjuna heimsóttu sem dæmi 11.500 manns sumarið 2015 og hefur fjölgað stöðugt síðan. Í frétt Andoyaposten 2015 stóð: Nyksund – fiskeværet som ikke ville dø - Nyksund - sjávarþorpið sem neitaði að deyja – og byggir nú tilvist sína á ferðaþjónustu. Á þessum útkjálka kjósa þau hjónin að búa og þar rekur Svein Eirik vinnustofu og gallerí. Í galleríinu starfar Marie Elisabeth auk þess sem þau reka lítið gistihús. Ritstörf stundar hún einnig.

Vera hinna norsku hjóna á Vopnafirði er tilkomin í gegnum lista- og menningarsamstarf Austurlands og Vesterålen sem varað hefur um árabil. Munu þau dvelja hér í mánuð og vinna að eigin verkefnum auk samastarfs við Vopnafjarðarhrepp um tiltekin verkefni sem nánar verða kynnt síðar.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir