Ögrun í Vopnafirði

07.10 2017 - Laugardagur

Bjarney Guðrún Jónsdóttir hefur ríkt hugarflug og lengi vel naut til að mynda Einherji góðs af hugmyndabankanum og Vopnfirðingar um leið. Á íbúaþingi sl. árs setti hún fram sérlega athyglisverða hugmynd sem er til kynningar hér og er meðfylgjandi texti Bjarneyjar Guðrúnar og meðfylgjandi myndir hennar og Jóns Sigurðssonar. Hugmyndin gengur undir nafninu Ögrun í Vopnafirði.

 

Ég hef lengi gengið með þá hugmynd í maganum að reyna að finna einhverja leið til að auglýsa og fá fólk til að heimsækja okkur á Vopnafjörð og sjá hversu fjölbreytta og skemmtilega nátturu fjörðurinn býður uppá. Ég hafði alltaf hugsað mér að reyna að búa til einhverskonar útivistarratleik sem myndi höfða til útivistarfólks um allan heim. Ég veit ekki til þess að þessi hugmynd sé notuð annars staðar og mér fannst þetta vera eitthvað nýtt sem gæti hugsanlega laðað til okkar fólk. Á íbúaþingi sem haldið var á Vopnafirði haustið 2016 setti ég fram hugmynd um ferðatengdan ratleik. Hugmyndinni var vel tekið og síðasta vetur notaði ég í hugmyndavinnu varðandi leikinn og hvernig væri best að setja hann fram til þess að hann vekti athygli og hentaði sem flestum.

 

Niðurstaðan eftir að hafa ráðfært mig við nokkra einstaklinga og borið hugmyndina undir þá er sjálfbær myndaleikur sem er skipt er upp í þrjú erfiðleikastig þ.e. gull-, silfur- og bronshringur. Í hverjum hring eru 8 myndir af áhugaverðum stöðum og leikurinn gengur út á það að liðin eiga að finna þessa staði og taka eins mynd með sínu liði og pósta henni á síðu leiksins með ákveðnu hasstaki. Þegar leiknum er startað þá opnar myndaalbúm merkt þeim hring sem þú ætlar að taka þátt í og þá sérðu fyrirmyndirnar og færð nánari upplýsingar um staðinn og hvernig á að merkja viðkomandi mynd. Það lið sem er fyrst til að birta allar 8 myndirnar frá réttu sjónarhorni vinnur. Bronshringurinn er fjölskyldumiðaður og fer fram innan bæjarmarka kauptúnsins á einum degi, silfurhringur fer um sveitir Vopnafjarðar en ætti að henta flestum og hafa keppendur 5 daga til að klára verkefnið að lokum er það gullhringur sem er erfiðastur og inniheldur krefjandi verkefni eins og fjallgöngur en liðin hafa einnig 5 daga til að ljúka honum. Ég prufaði að keyra þessa útgáfu af leiknum á Vopnafjarðardögum síðasta sumar og það gekk bara nokkuð vel, þeir sem tóku þátt voru ánægðir og fólk sá staði hér á Vopnafirði sem það hafði ekki séð áður og þá finnst mér markmiðinu að einhverju leyti náð.

 

Það sem tekur við núna er að þróa leikinn áfram og breyta aðeins áherslum. Stefnan er að búa til leik sem hentar bæði heimafólki og ferðamönnum, þeim sem vilja keppa í hraða og útsjónarsemi og þeim sem vilja njóta og upplifa Vopnafjörð. Hugmyndaflugið getur svo borið okkur áfram í hugmyndavinnu um hvað hentar innan ramma Ögrunar en það þarf ekki endilega að vera myndatengdur ratleikur, það getur verið hjólakeppni, hlaupakeppni og alls konar upplifun í Vopnafirði. Ögrun í Vopnafirði getur verið í gangi einhvern ákveðinn tíma eða yfir lengra tímabil en ég vona innilega að hún sé komin til að vera og með tíð og tíma verði aðdráttarafl fyrir Fjörðinn okkar fagra.

 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir