690 Vopnafjörður í Bíó Paradís – sýnd á FIPA í Frakklandi

20.10 2017 - Föstudagur

Heimildarmyndin 690 Vopnafjörður verður tekin til sýninga í Bíó Paradís í Reykjavík, sú fyrsta verður fimmtudaginn 26. október nk. Þar verða Karna Sigurðardóttir leikstjóri myndarinnar og Sebastian Ziegler myndasmiður til svars en frá því að myndin var frumsýnd þann 28. maí sl. hefur hún tekið nokkrum breytingum þótt hún sé í megindráttum hin sama. Að lokinni sýningunni býðst gestum að hittast í kaffihúsi Paradísarbíós og spjalla um vopnfirskt mannlíf, myndina, lífið og tilveruna. Myndin hefur verið valin til sýninga á kvikmyndahátíðinni FIPA í Frakklandi og felst í því mikil upphefð.

 

Karna segir það tilhlökkunarefni að fá tækifæri til að sýna myndina í bíóinu: „Við getum ekki beðið eftir því að safna saman þeim sem hafa fylgst með þróun myndarinnar, brottfluttum Vopnfirðingum; bekkjarfélögum og fermingarsystkinum, rifja upp gamla og góða tíma og í leiðinni upplifa Vopnafjörð nútímans.“

 

Í kynningu myndarinnar segir:

 

690 Vopnafjörður.jpgAustur á Vopnafirði eiga 645 manns heima. Í daglegu amstri samfélagsins vofir yfir ógnin af fólksfækkun en hver einstaklingur skiptir miklu máli til að halda voninni um að litla byggðarlagið eigi sér framtíð.

 

Heimildarmyndin 690 Vopnafjörður gefur innsýn í tengsl íbúanna við heimabæinn sinn, sjálfsmyndina sem er samofin firðinum og samfélagsleg áhrif sem heldur fólki heima, eða ber það á önnur mið.

 

Á ensku:

 

In the middle of nowhere where most could not even imagine living, the 645 villagers of Vopnafjörður can't think of a better place to call home. Where single individuals carry the responsibility of ensuring and defining the community's future, the fear of depopulation leaves no one freed from the pressure of protecting the existence of their little village.

 

Through testimonies of everyday experiences, the people of Vopnafjörður shares with sincerity how its identity is profoundly linked to the fjord. 690 Vopnafjörður explores the communal tensions that push people to stay or leave a place like Vopnafjörður.

 

690 Vopnafjörður 3.jpgKvikmyndahátíðin FIPA - Festival International de Programmes Audiovisuels - er alþjóðleg hátíð kvikmynda í mörgum flokkum sem sett var á stofn árið 1987. Ekki færri en 1200 umsóknir berast til stjórnar hátíðar frá meira en 70 löndum en um 10% þeirra hljóta náð fyrir augum dómnefndar. Meðal þeirra er heimildarmyndin 690 Vopnafjörður. Hefur hátíðin vaxið ár frá ári og þarf ekki að fara um það mörgum orðum hver sú upphefð er að vera meðal útvalinna og verður spennandi að fá fregnir af hátíðinni sem stendur yfir dagana 23.-28. janúar nk. Hamingjuóskir til Körnu og Sebastians sem og Vopnfirðinga allra, við getum og eigum að vera stolt af þessari ljóðrænu samfélagsmynd sem hlotið hefur lof gagnrýnenda. Það hefði nefnilega verið svo auðvelt að fara hefðbundnari leið ímyndarsköpunar með markaðsöflin að leiðarljósi.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir