Ljósmyndasýning Svein Erik Töien í Kaupvangskaffi

26.10 2017 - Fimmtudagur

Arkitektinn og ljósmyndarinn Svein Erik Töien hefur dvalist ásamt eiginkonu sinni um nokkurra vikna skeið á Vopnafirði. Hefur Svein Erik um árabil unnið jöfnum höndum sem hönnuður og ljósmyndari en hann þykir hafa einstakt auga fyrir því sem hin almennt tökum ekki eftir og myndir hans vakið athygli víða. Nú er komið að okkur Vopnfirðingum að fá að njóta en í kvöld kl. 20:00 mun Svein Erik greina nánar frá starfi sínu á vettvangi ljósmyndunar og arkitektúrs um leið og hann opnar ljósmyndasýningu. Er vettavangur viðburðar Kaupvangskaffi.

Í dreifibréfi sem fór í hvert hús sveitarfélagsins í vikunni er nánari kynning á Svein Erik Töien:

Svein Erik Tøien er menntaður arkitekt með sérstakan áhuga fyrir ljósmyndun. Allt frá unga aldri hefur hann verið mjög áhugasamur um ljósmyndun og nú skiptir hann tíma sínum á milli arkitektavinnu og ljósmyndunar.

Eitt af hans áhugasviðum sem ljósmyndari er landslag og náttúra og þar er hann sérstaklega upptekinn af að fanga hið töfrandi og „ósýnilega“ í náttúrunni auk margvíslegs ljósaspils hennar. Öllu þessu er auðvelt fyrir hann að sinna frá heimili sínu í hinum gamla fiskibæ Nyksund í Vesterålen í norður Noregi.

Svein Erik 13.jpgÍ meira en áratug hefur Svein Erik Töien rekið sitt eigið netgallerí (ljósmyndasýning á netinu) - www.setoien.com þar sem myndum einkum frá Nyksund og af norður norsku strandlandslagi eru gerð góð skil. Hin síðari ár hefur hann haldið margar einkasýningar, er hann er jafnframt kynntur sem ljósmyndalistamaður í „Art in Vesteraalen“.

Haustið 2015 dvaldi Svein Erik á Djúpavogi sem liður í menningarsamstarfi milli Austurlands og Vesterålen þar sem hann vann að ljósmyndaverkefni sem snerist um samband mannsins og náttúrunnar.

Á þeim undanförnum fjórum vikum sem hann og konan hans, Marie Elisabeth Mjaaland, hafa dvalið hér á Vopnafirði – sbr. menningarsamstarf Austurlands og Vesterålen - hafa þau unnið með verkefni sem þau kalla „Hjartsláttur Náttúrunnar“.

Með myndavélina að vopni hefur hann reynt að „komast undir yfirborðið“ á náttúrunni og í því sambandi einbeitt sér m.a. að vinnu með vatn á hreyfingu. Í tengslum við verkefnið stofnaði hann til samstarfs við börnin í 2.-4. bekk Vopnafjarðarskóla. Börnin lærðu að búa til pappírsbáta og fylgdust með afdrifum þeirra í í læk sem rennur í Hofsá.

Svein Erik hefur einnig notað „arkitektaauga“ sitt til að skoða nokkra staði á Vopnafirði sem geta í framtíðinni skipt staðinn nokkru máli.

Svein Erik mun greina nánar frá þessu fimmtudaginn 26. október nk. kl 20:00 í Kaupvangskaffi.

Opnuð verður jafnframt sýning á nokkrum af þeim ljósmyndum sem hann hefur tekið hér á Vopnafirði á undanförnum vikum.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir