Þuríður Björg vígður sóknarprestur Hofsprestakalls

13.11 2017 - Mánudagur

Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, vígði tvo guðfræðinga til prestsþjónustu í gær, sunnudaginn 10. nóvember. Annar þeirra er Þuríður Björg Wiium Árnadóttir sem vígðist sem sóknarprestur í Hofsprestakalli. Athöfnin fór fram í Dómkirkjunni..

 

Mag. theol. Dís Gylfadóttir var vígð til prestsþjónustu í Lindaprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra og mag. theol. Þuríður Björg Wiium Árnadóttir sem fyrr greinir vígð til sóknarprestsþjónustu í Hofsprestakalli Austurlandsprófastsdæmi.

 

Vígsluvottar voru séra Sólveig Lára Guðmundsdóttir, séra Toshiki Toma, séra Guðmundur Karl Brynjarsson, séra Stefán Már Gunnlaugsson, séra Gísli Jónasson sem lýsti vígslu og séra Sveinn Valgeirsson sem þjónaði fyrir altari. Stefán Már var vígsluvottur Þuríðar Bjargar og til hans sótti hún starfsþjálfun sína.

 

Þura prestur - 8.jpgAðspurð kvaðst Þuríður Björg horfa með tilhlökkun til komandi ára en hún tekur formlega við embætti við innsetningarmessu sem Davíð Baldursson prófastur annast. Það er hátíðarstund og má vænta fjölmennis. Kvaðst Þuríður hafa heyrt þær vangaveltur að hún, heimastúlkan, væri að ráðast í ærið verkefni að hefja starfsferilinn í heimabyggð sinni þar sem nálægðin er mikil. Sagði það ekki setja á hana meiri pressu því það væri sama hvar hún hefði byrjað alltaf yrðu gerðar til hennar væntingar og óháð staðsetningu þarf hlutaðeigandi að vanda verk sitt. Kvaðst hún ennfremur ganga inn í góðan grunn forvera síns.

 

Um fjökylduhagi sagði Þuríður stöðuna vera þannig að þær mæðgur væru fluttar í Vopnafjörðinn en Jón Orri myndi flytja í desember. Samkvæmt ákvörðun Biskupsstofu mun sóknarpresturinn búa á Hofi og er Þuríður meira en sátt við það. Hlakkar til flutningsins þótt ekki liggi fyrir hvenær af honum verður en eitt og annað þarf að lagfæra við húseignina.

 

Meðfylgjandi eru myndir frá athöfninni í Dómkirkjunni sem tíðindamaður fékk góðfúslega heimild til að nota og eru af facebook-síðu Þuríðar.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir