Fjárhagur sveitarfélaga vænkast

15.11 2017 - Miðvikudagur

Eftir mikla skuldsetningu sveitarfélaganna fyrir og eftir hrun hefur rekstur þeirra flestra farið batnandi m.a. fyrir hækkun á útsvarstekjum og fasteignaverðs. Bætt staða hefur síðan áhrif á tekjujöfnunarframlag úr Jöfnunarsjóði, það lækkar eðlilega við batnandi rekstur.

 

Í viðtali við Sveitarstjórnarmál 5. tbl. þessa árs segir Vífill Karlsson dósent við HA meiri ástæðu til að ætla að stjórna megi fjárhag sveitarfélaga af yfirvegun og skynsemi til framtíðar Hækkandi tekjur og fasteignaskattar spili þar stórt hlutverk en eins hafi gengi krónunnar árunum eftir hrun haft sitt að segja þótt viðsnúningur hafi átt sér stað sl. misseri. Veiking krónunnar efldi allar útflutningsgreinar þar með talið ferðaþjónustuna sem skilar sér misjafnlega til sveitarfélaganna.

 

Til að ferðaþjónustan skapi sveitarfélögum verulegar tekjur þurfa ferðamenn að kaupa gistingu og eins þurfi sveitarfélög að státa af allnokkurri breidd í þjónustu sem felur í sér kaup á afþreyingu – fæst minni sveitarfélög eru því miður ekki í þessari stöðu nema þau sem njóta nærveru helstu ferðamannastaða landsins. „Sveitarfélögin eru mjög misjafnlega búin til þess að laða að ferðafólk, taka á móti þeim, þjónusta það og njóta tekna af. Gisting ein og sér dugir ekki til þess að skapa nægilegar tekjur á móti kostnaði vegna ferðamanna og dæmi eru um að fámenn sveitarfélög úti um land sjái aðeins kostnað af ferðafólki en litlar sem engar tekjur“. Fleira hefur áhrif á tekjuhliðina, t.a.m. lögheimili þeirra sem í ferðaþjónustunni starfa.

 

P5098457.JPGUm hugsanlegan flutning verkefna á milli stjórnsýlsustiga, frá ríkinu til sveitarfélaganna, segir Vífill það vera spurninguna eilífu. Minnir hann á að frá 1950 hafi sveitarfélögum fækkað úr 229 í 74 nú, raunar eru þau 73 að lokinni sameiningu Sandgerðis og Garðs um liðna helgi. Í reynd hafi einungis tvö verkefni verið flutt, rekstur grunnskólans og þjónusta við fatlaða. Síðan hefur verið deilt um hvort nægilegt fé hafi fylgt flutningi verkefnanna. Segir Vífill vera tvær skynsamlegar ástæður fyrir frekari flutningi verkefna. Rannsóknir sýni að sveitarfélögum henti betur að sinna nærþjónustuverkefnum og einnig ýmis konar sérfræðiþjónustu þar sem kostnaður á per einstakling sé lægri í meðförum sveitarfélaganna. Eins eru líkur á að sveitarstigið sé líklegra til að bjóða þjónustu sem nær óskum neytandans en ríkið.

 

Sem kunnugt er hefur bróðurpartur fyrirtækja heimilisfesti á höfuðborgarasvæðinu, öll þessi svokölluðu „landsdekkandi“ sem eru með síðan með útstöðvar víða. Þessi fyrirtæki greiða gjöld sín þar af leiðandi ekki til þess sveitarfélags sem þau kunna að hafa rekstur í. Á móti hafi þau á síðari árum sýnt meiri samfélagsábyrgð, þau séu viljugri að styrkja ýmist starf eða uppbyggingu í t.a.m. íþrótta-og menningarmálum. Með því létti fyrirtæki á vissan hátt undir með hlutaðeigandi sveitarfélagi í rekstri tiltekinna málaflokka.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir