Veður versnandi fer

20.11 2017 - Mánudagur

Vetur er genginn í garð, raunar er hátt í mánuður síðan að vetur tók við af sumri/hausti skv. almanakinu. Lengi vel var tíðin mild en Ísland stendur norðanlega á jarðarkringlunni og að því hlaut að koma að vetur knúði dyra. Allnokkur snjór féll í þéttbýli Vopnafjarðar um helgina og útlit að svo verði áfram. Skv. Veðurstofunni má gera ráð fyrir vetrarveðri þessa viku, raunar þannig að fólk sem hyggst leggjast í ferðalag landshluta á milli athugi aðstæður áður en lagt er í hann. Hríðarbakki er væntanlegur úr norðri og síðdegis mun veður versna til muna Norðanlands og eins á norðan­verðum Vestfjörðum.

 

Reikna má með 15-20 m/s með ofankomu og skafrenningi. Mjög blint verður við þessar aðstæður og einnig á láglendi. Vetrarfærð er á Norðurlandi, snjóþekja eða hálka víðast hvar. Éljagangur eða snjókoma mjög víða. Á Austur- og Suðausturlandi er víða hálka eða snjóþekja en greiðfært frá Norðfirði suður að Höfn.

 

Vaxandi norðan- og norðaustanátt með snjókomu eða éljum, en lengst af þurrt og bjart sunnantil, 15-23 norðan- og vestan­til í nótt, en hægari um landið suðaustanvert þar til á morg­un. Norðaustan 10-18 annað kvöld, frost 0 til 10 stig kaldast inn til landsins. Í athugasemd veðurfræðings kemur fram að útlit er fyrir norðaustan hvassviðri eða storm með snjókomu eða éljum um landið norðanvert frá þriðjudegi til föstudags. Verður skyggnið víða lélegt, einkum um landið norðanvert. Sem fyrr greinir er fólk sem hyggur á ferðalög er hvatt til að fylgjast vel með þróun veðurspáa og viðvarana.

 

Veðurhorfur á landinu næstu daga skv. Veðurstofu ÍslandsIMG_5797.JPG

 

Á þriðjudag:

Norðan- og norðaustan 15-23 m/s, en mun hægari um landið suðaustanvert. Snjókoma eða él um landið N- og A-vert, en yfirleitt þurrt og bjart suðvestantil. Frost 0 til 10 stig, kaldast í innsveitum.

 

Á miðvikudag og fimmtudag:

Norðan og norðaustan hvassviðri og él, en bjart að mestu sunnan og vestanlands. Kalt í veðri.

 

Á föstudag:

Norðanátt og él, dregur úr vindi og ofankomu vestantil þegar líður á daginn, en bætir í vind allra austast. Áfram kalt í veðri.

 

Á laugardag:

Útlit fyrir norðvestanátt með dálitlum éljum við NA-ströndina, en hægari breytileg átt og víða léttskýjað annars. Talsvert frost, einkum inn til landsins.

 

Á sunnudag:

Útlit fyrir sunnan og síðar suðvestanátt með snjókomu eða slyddu. Minnkandi frost og hlánar við suðvesturströndina.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir