Skóli við Lónabraut í 50 ár

22.11 2017 - Miðvikudagur

Föstudaginn 17. nóvember sl. var boðið til opins húss í Vopnafjarðarskóla. Tilefnið var ærið því skólinn, starfsmenn hans, vildu fagna 50 ára afmæli skóla við Lónabraut með öðrum úr samfélaginu vopnfirska. Fjölmargir svöruðu kallinu og fyrir þá sem minningar eiga úr skóla á þessum stað nutu þess að rifja upp gamla góða tíma, þann tíma sem þeir áttu í Vopnafjarðarskóla og síðar börn þeirra og barnabörn. Mikið var skrafað, vöngum velt og hlegið. Á stundu sem þessari sannar ljósmyndin eftirminnilega gildi sitt.

 

Glöggt er gesta augað. Svo skjótt sem inn í skólann var komið var gesturinn leiddur inn í liðinn tíma, ekki endilega í línulegri frásögn en með t.t.l. einföldum hætti mátti raða saman heillegri mynd af sögu skóla við Lónabraut í 50 ár. Nemendur og starfsmenn höfðu lagt á sig mikla vinnu til að búa til athyglisverða sýningu sem gestir bersýnilega nutu í hvívetna. Myndir, texti og handverk nemenda bar við augu er farið var um upprunalega hluta skólans við Lónabraut sem hannaður var af Sigvalda Thordarsyni einum merkasta arkitekt síns tíma og eins fulltrúa módernismans í íslenskri byggingalist.IMG_9604.JPG

 

Svei mér þá ef ekki tók hugurinn undir þegar yngstu nemendur skólans tóku að kyrja gömlu skólalögin – Í skólanum, í skólanum er skemmtilegt að vera – staðurinn var barnaskóli norður í landi, stofan númer 9 og kennarinn Jónas. Að ljúfum söng loknum vék hugurinn að stund og stað, áfram var rölt, skrafað og skoðað uns komið var að kaffihlaðborði á sal skólans. Í boði var andleg sem líkamleg næring á afmælisdegi Vopnafjarðarskóla og þar eð hvoru tveggja var myndarlega framreitt má staðhæfa að vel hafi til tekist.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir