Innsetning Þuríðar Bjargar

27.11 2017 - Mánudagur

Séra Þuríður Björg Wiium Árnadóttir er sóknarprestur Hofsprestakalls. Það var staðfest við innsetningarmessu í Vopnafjarðarkirkju í gærkvöldi. Sr. Davíð Baldursson prófastur Austurlandsprófastsdæmis var hingað kominn til að setja Þuríði Björgu inn í embætti. Var athöfnin öll hin hátíðlegasta enda ekki á hverju ári sem prestur er settur í embætti. Þuríður Björg annaðist messugjörð og fólst það vel húr hendi, örugg og fullkomlega fumlaus.

 

Með innsetningu er hinn vígði þjónn kynntur söfnuði sínum eða starfsvettvangi í guðsþjónustu. Í guðsþjónustunni staðfestir söfnuðurinn vilja sinn til að fylgja köllun sinni og umlykur hinn vigða fyrirbæn sinni. Þannig er athöfnin skilgreind en sá sem vígist til embættis prests vinnur biskupi heit um að inna þjónustu sína að hendi á grundvelli játninga og skipanar kirkjunnar. Færði sr. Davíð Þuríði erindisbréf biskups eftir að hafa lesið upp skyldur og ábyrgð prests í starfi – og er hreint ekki lítill lestur. Kvaðst Davíð ekki efast um það eitt augnablik að Þuríður ætti eftir að verða farsæl embættisverkum sínum. Sú góða mæting í kirkjuna við innsetningu Þuríðar sýndi að Vopnfirðingar taka við presti sínum með hlýhug og trausti.

 

IMG_9792.JPGÞuríður kaus að flytja predikun sína frá kórnum innan við gráturnar í stað þess að standa í predikunarstólnum en forrennari hennar, Stefán Már, staðsetti sig gjarnan á gólfinu framan altarishlutann. Mæltist Þuríði vel, gaf fólki bæði ástæðu til að íhuga eigin tilveru og sló á létta strengi. Skapast með þessu nálægð sem kirkjugestir kunna vel að meta. Að lokinni messu var gestum boðið að veisluborði og þáðu margir. Þar flutti Davíð ávarp og færði Þuríði gjöf, styttu af ungri kona sem gat allt eins verið eftirmynd hins nýja prests okkar. Konan er með hönd á hjartastað sem tákn þess að hún geymir trú sína með sér.

 

Haraldur Jónsson meðhjálpari um árabil við Hofskirkju flutti einnig ávarp. Sagði Haraldur það tímamót að hingað sé ráðinn kvenprestur, vissulega hefðu kvenprestar þjónað hér en ekki sem sóknarprestar safnaðanna. Það gerði tímamótin enn merkilegri að Þuríður Björg mun vera fyrsti presturinn sem er borinn og barnfæddur Vopnfirðingur. Sannarlega merkisdagur í Vopnfirskri sögu.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir