Rithöfundalest(ur) á Austurlandi

29.11 2017 - Miðvikudagur

Rithöfundalest(ur) á Austurlandi - Kaupvangskaffi á Vopnafirði, fimmtudaginn 30. nóv. nk. kl. 20:00.

 

Árviss rithöfundalest fer um Austurland dagana 30. nóvember til 02. desember nk. Á ferð verða kunnir höfundar með nýjustu verk sín. Austfirska verðlaunaskáldið Jónas Reynir Gunnarsson les úr skáldsögunni Millilendingu, sem bókaútgáfan Partus gefur út, og annar austfirskur höfundur, Hrönn Reynisdóttir kemur með annað bindið um hina ótrúlegu Kolfinnu, Nei, nú ertu að spauga, Kolfinna! sem Bókstafur gefur út. Valur Gunnarsson fjallar um hernám Þjóðverja á Íslandi í Örninn og fálkinn sem kemur út hjá Forlaginu og Friðgeir Einarsson, les úr skáldsögu sinni um Formann húsfélagsins sem Bókaútgáfan Benedikt gefur út.

 

Auk ofangreindra bóka verður lesið úr fleiri nýjum verkum sem koma út hjá austfirska forlaginu Bókstaf auk þess sem höfundar heimsækja bæði Sundabúð og Vopnafjarðarskóla.

 

Menningarmálanefnd Vopnafjarðar stendur fyrir rithöfundalestinni auk þess sem lestin nýtur stuðnings forlaganna, Uppbyggingarsjóðs Austurlands, Bílaleigu Akureyrar, Alcoa Fjarðaáls, Síldarvinnslunnar og Gullbergs.

 

Aðgangseyrir 1000 kr. Bækur höfunda verða seldar á staðnum.

 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir