Skemmtun, messa og tendrun jólaljósa

01.12 2017 - Föstudagur

Í dag fagnar íslensk þjóð fullveldi sínu, 1918 er langt undan og einhvern veginn hefur þessi dagur fallið í skuggann af þjóðhátíðardegi lýðveldisins. Þarna voru mikilvæg skref stigin í átt til sjálfstæðis sem 26 árum síðar var lýst yfir að viðstöddu fjölmenni á Þingvöllum.

 

Annað kvöld stendur Skemmtifélagið stendur fyrir skemmtun í Miklagarði og hefst kl. 20:30 en húsið opnar nokkru fyrr og sjálfsagt að koma fyrr og finna sér þægilegt sæti. Mun jólaandinn vera alls ráðandi og af fenginni reynslu verður án efa mikið fjör en sem kunnugt er tekur fátt því fram þegar heimafólk stendur að samkomu.

 

IMG_5709.JPGSunnudagurinn 03. desember markar upphaf aðventunnar, fyrsti sunnudagur í aðventu en skv. skilgreiningunni er aðventa - úr latínu: Adventus - „koman“ eða „sá sem kemur“ - í fjórir síðustu sunnudagarnir fyrir jóladag. Kl. 16:00 er aðventuhátíð í Vopnafjarðarkirkju með þátttöku barna og kirkjukórsins. Klukkustund síðar tekur við dagskrá við Kaupvang, tendrað verður á ljósum jólatrésins. Áður en því kemur mun Karlakór Vopnafjarðar syngja nokkur jólalög, Bjartur Aðalbjörnsson flytja hugvekju og miklar líkur eru á að jólasveinar muni heiðra unga sem eldri með nærveru sinni. Þá mun verða gengið í kringum jólatréð og -söngvar sungnir.

 

Það er rétt að hafa það í huga að á sunnudaginn lokar Selárlaug kl. 15:00 í stað venjubundinnar opnunar til kl. 16 – mikið er jú um að vera í þéttbýlinu.

 

Meðfylgjandi myndir er frá tendrun jólaljósa á sl. ári.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir