Fyrsti sunnudagur í aðventu - á Vopnafirði

04.12 2017 - Mánudagur

Í gær var fyrsti sunnudagur í aðventu sem er augljós merki um að jólin eru í nánd og niðurtalningin er hafin. Vopnfirðingar eins og aðrir landsmenn huga að jólum með sínum hætti. Hefð er komin fyrir dagskrá á fyrsta sunnudegi í aðventu, aðventuhátíð í Vopnafjarðarkirkju og dagskrá við Kaupvang hvar tendrað er á ljósum jólatrésins. Raunar bauðst íbúum heitt súkkulaði og smákökur á Hótel Tanga frá og með kl. 14 og það nýttu sér margir.

 

Aðventuhátíðin var fjölsótt en þáttur krakka/ungmenna var mikill, messuformið var allt annað en hefðbundið. Þjónaði séra Þuríður Björg fyrir altari en að þessu sinni naut kirkjukórinn fulltingis ungra radda krakkakórsins. Stóðu allir hlutaðeigendur sig með prýði. Tónlistarflutningur annar og leikþættir stóð kirkjugstum til boða sem þökkuðu fyrir sig með lófaklappi Tendrað var á fyrsta aðventukertinu, aðventan var hafin.

 

IMG_9950.JPGFormleg dagskrá utan veggja Kaupvangs hófst með hugleiðingu Bjarts Aðalbjörnssonar sem vakti verðskuldaða athygli. Að ávarpi loknu voru ljós jólatrésins tendruð, lýstu ljós hins myndarlega trés umhverfið. Karlakórinn söng undir stjórn Stephen Yates þrjá jólasöngva. Þar eð veður var gott gekk kórfélögum vel að koma söngnum frá sér en veðrið – og þá einkum vindurinn - hefur farið misvel með sönginn í gegnum árin.

 

Síðan tók mannskapurinn höndum saman og hóf að ganga í kringum jólatréð, jólasöngvar sungnir öllum til yndis og ánægju. Ekki minnkaði ánægjan og eftirvæntingin er þeir mættu glaðbeittir á snjóbíl, jólasveinarnir. Og víst komu þeir með tilheyrandi hávaða og gleðibrag. Tóku sveinar til óspilltra málanna og slógust í för með hringförum er kyrjuðu jólasöngva af hjartans list. Útdeildu síðan góðgæti til hvers og eins sem þiggja vildi. Þegar sveinarnir góðu kvöddu lauk formlegri dagskrá en eftir stendur myndarlegt jólatréð, okkur íbúum til ánægju og áminningar um að framundan er hátíð ljóss og friðar.

Meðfylgjandi eru myndir tíðindamanns af deginum, fyrsta sunnudegi í aðventu.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir