Þorláksmessa

23.12 2017 - Laugardagur

Í dag er Þorláksmessa, dagurinn fyrir aðfangadag jóla. Um Þorláksmessu segir: Þorláksmessa, sem er þann 23. desember, er haldin til minningar um Þorlák hinn helga Þórhallsson biskup í Skálholti. Hann lést 23. desember 1193 og var þessi messudagur tekinn upp honum til heiðurs og lögleiddur 1199. Gissur Hallsson sagði um Þorlák m.a.: „Hann var hreinlífur alla ævi, siðsamur og lastvar, ör og réttlátur, miskunnsamur og heilráður, lítillátur og stjórnsamur, mjúklyndur með sannri ást og elsku bæði við Guð og menn.“

 

Dagur að sumri ber einnig nafn Þorláks og er 20. júlí. Enda þótt sjálf jólahátíðin hæfist ekki fyrr en á miðjum aftni á aðfangadag, var undirbúningur hennar á fullu skriði dagana áður. Þá þurfti að ljúka við að þrífa bæinn hátt og lágt, þvo rúmföt og nærföt. Þá voru og seinustu forvöð að steypa jólakertin. Alsiða var að sjóða jólahangiketið á Þorláksmessu og sumstaðar var fólki leyft að bragða á því eða hangiflotinu. Allt þetta tilstand olli því að fólk hlakkaði til Þorláksmessunnar líkt og sjálfra jólanna. Af þeim sökum var dagurinn fyrir Þorláksmessu sumstaðar kallaður hlakkandi.

 

Á seinni tímum hefur Þorláksmessa orðið hluti af jólaundirbúningnum, en þennan dag eru margir að ljúka við að skreyta hús og híbýli og margir hafa þann sið að skreyta jólatréð á þessum degi. Um árabil voru verslanir opnar lengur en nokkurn annan dag á árinu en á sl. árum hefur opnun lengst og Þollákur sker sig vart úr lengur. Á Þorláksmessukvöld í Reykjavík hefur skapast sú hefð að ganga friðargöngu niður Laugarveginn – og raunar eru á Akureyri og Ísafirði einnig farna friðargöngur.

 

Svo er það skatan. Á Vestfjörðum er vaninn að borða kæsta skötu á Þorláksmessu en sá siður hefur á síðustu árum orðið algengur um allt land. Er talið að eigi færri en 100 þúsund eða hátt í þriðjungur þjóðarinnar bragði á skötunni. Í þeim hópi er nokkur kjarni Vopnfirðinga en þeir sem svo kjósa segja það nauðsynlegan hluta jólahátíðar. Hinn lyktarsterki fiskur þykir þeim lostæti – og því sterkari á bragðið þykir hann betri. Verði hlutaðeigendum sannarlega að góðu!
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir