Aðfangadagur jóla

24.12 2017 - Sunnudagur

24. desember það herrans ár 2017 er genginn í garð, aðfangadagur jóla. Í kvöld klukkan 18:00 verða jólin, hátíð ljóss og friðar hringd inn. Er óskandi að allir fái hennar notið. Tíðin líður og eirir engu; eftir einungis 8 daga er árið liðið og aldrei það kemur til baka. Í huga barna er mikilvægasti tíminn þó eftir, blessuð jólahátíðin. Sjálfsagt er aldrei haldið fastar í hefðirnar en einmitt á þessum tímamótum og þótt við njótum þess í hvívetna að gleðja aðra með gjöf sem gefin er af góðum hug – og þiggjum jafnvel aðra í staðinn – er það samveran, nándin, sem við setjum ofar öllu. Að njóta samvista við fjölskyldu sína á þeim forsendum sem hefðirnar hafa skapað er okkur ómetanlegt og aftur þess óskað að þess fái allir notið.

 

Það er ávallt öðru vísi stemning ríkjandi á heimilinu þegar dregur að jólum, það er ekki tilviljun þegar talað er um jólaskapið. Fólk fer í annan gír og svei mér þá ef hinir hörðustu meyrna ekki ögn á þessum tíma árs. Allt er breytingum undirorpið, tíðin líður og eirir engu, ásýnd aðventu og jóla verður þar ekki undanskilin. Mestu varðar þegar á öllu er botninn hvolft viðhorft hvers og eins til viðburðarins.

 

Sú mikla stemning sem einkenndi æskujól þess er þetta ritar kann að vera löngu liðin tíð. Við því er ekkert að gera enda breytast samfélögin hraðar en nokkru sinni og sú þjóð sem einu sinni var einangruð langt í norðurhafi er nátengd þjóðum í þúsundum kílómetra fjarlægð í gegnum samskiptatækni nútímans.

 

IMG_6329.JPGEf einhver tímamót kalla fram barnið í okkur er það aðventan og jólin. Að auðnast varðveita barnið í hjarta sínu er mikilsvert og um leið fá notið stundarinnar með sínum nánustu. Jólin eru hátíð barnanna og hví ekki að slást í hópinn hverfa um stund á vit æskunnar þegar heimurinn var heimili pabba og mömmu og nánasta umhverfi þess. Með þeim minningum tökum við okkur veganesti til að skapa okkar eigin hefðir sem verða þær sem við sköpum börnunum okkar og þau geta engan veginn verið án.

 

Víða er fólk að finna sem hugsar út fyrir nánustu fjölskyldu sína þegar að hátíð ljóss og friðar kemur. Við skulum ekki gleyma að víða á fólk um sárt að binda og engan veginn sjálfgefið að blessuð jólin séu sá yndislegi tími sem þau eru í huga okkar velflestra. Við skulum hugsa vel til hvers annars, minnast hins sanna tilgangs hátíðar ljóss og friðar - og með þeim orðum fá Vopnfirðingar sem og landsmenn allir innilegar jólakveðjur frá Vopnafjarðarhreppi.

 

Gleðileg jól.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir