Jól

25.12 2017 - Mánudagur

Jól eru ein stærsta hátíð kristinna manna. Í huga þess er þetta ritar sú stærsta og kann vel að vera að æskujólin sitji svo fast í höfði hans en minningarnar eru yndislegar. Allt er breytingum undirorpið, eins er það með jólin. En af hverju höldum við jól? Hinir kristnu halda þessa hátíð í minningu fæðingar Jesú, sonar Maríu meyjar. Í kristinni trú er Jesús sonur Guðs (Drottins), Kristur (hinn smurði), Messías, sem spámennirnir sögðu fyrir að koma myndi.

 

Jól eru haldin um gjörvallan hinn kristna heim og víða annars staðar þar sem kristni er jafnvel í miklum minnihluta. Hátíðin er ekki á sama tíma alls staðar. Hjá mótmælendum og rómversk kaþólskum eru jól haldin á jóladag, þann 25. desember, og sumir þeirra hafa heilagt frá klukkan 18 á aðfangadag jóla, en það gera alls ekki allar kristnar þjóðir. Hérlendis gengur hátíðin í garð kl. 18 á aðfangadegi með öllu því sem því kveldi fylgir.

 

IMG_6384.JPGOrðið aðfangadagur mun að líkindum vera þýðing á gríska orðinu parasceve (undirbúningur) sem notað var um daginn fyrir páskahelgina, þ. e. föstudaginn langa. En er núorðið eiginlega aðeins haft um 24. desember en það er dagurinn fyrir jóladag og því nefndur svo. Aðfangadagur páska og aðfangadagur hvítasunnu voru einnig áður fyrr nöfn á laugardögunum fyrir þessa helgidaga. Í austurkirkjunni (grísk kaþólsku og rétttrúnaðarkirkjunni) eru jólin haldin um það bil hálfum mánuði síðar.

 

Uppruni jólahalds er rakinn til sólhvarfahátíða heiðinna manna, sem fögnuðu endurkomu sólarinnar sem lífgjafa. Kristnir menn ákvörðuðu að Jesú hefði fæðst um þetta leyti árs og settu jólin á svipaðan tíma og sólhvarfahátíðin var áður. Með því móti glötuðu menn ekki miðsvetrarhátíðinni þó að þeir skiptu um trú.

 

Kristni er eingyðistrú af abrahamískum stofni. Upphafsmaður trúarbragðanna og sá sem þau eru kennd við var Jesú frá Nasaret sem meðal kristinna manna er kallaður Jesús Kristur. Byggjast þau á boðskap hans og trúnni á að hann hafi verið sonur Guðs og risið upp frá dauðum, svo að þeir sem á hann trúi öðlist eilíft líf. Um hann má lesa í Nýja testamentinu, sem er síðari hluti Biblíunnar, trúarrits kristinna manna.

 

Nú er kristin trú fjölmennustu trúarbrögð heimsins, með um 2 milljarða fylgjenda. Rúmur helmingur þeirra telst til rómversk-kaþólsku kirkjunnar, 367 milljónir eru mótmælendur og 216 milljónir tilheyra grísku/rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni. Kristnir búa flestir í Norður- og Suður-Ameríku, Evrópu og Ástralíu. Hlutfallslega eru kristnir mun færri í Asíu og Afríku en en í hinum álfunum en þar eru þó margir kristnir, meðal annars í Eþíópíu, þar sem kristni hefur verið við lýði frá 330.

 

IMG_6366.JPGKristni er fjölmennustu trúarbrögð heimsins í dag, einkum og sér í lagi á vesturlöndum og er hún þess vegna oftast talin ein af meginstoðum vestrænnar menningar.

 

Brandajól er það stundum kallað þegar jóladag ber upp á mánudag þannig að fjórir helgidagar komi í röð (sunnudagur, jóladagur, annar í jólum og þriðji í jólum sem áður var helgidagur). Einnig er stundum talað um stóru brandajól og litlu brandajól en menn greinir mjög á um hvernig þau séu skilgreind. Elsta heimild sem til er um brandajól er rituð af Árna Magnússyni um 1700:

 

Brandajól kalla gamlir menn á Íslandi þá jóladag ber á mánadag, áttadag á mánadag og þrettánda á laugardag. Segja þeir þá, eftir jólaskrá, hætt við húsbruna, aðrir halda það so kallað af miklum ljósabrennslum. Aðrir segja brandajól heita ei nema þegar jóladagurinn var fyrra árið á laugardegi og stökkur vegna hlaupárs á mánadag.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir