Við áramót

31.12 2017 - Sunnudagur

Árið 2017 heyrir brátt sögunni til, 364 dagar og ½ sólarhringur betur er að baki og á morgun hefst niðurtalningin á nýjan leik. Árið var merkt átökum innanlands og utan. Ríkisstjórn Bjarna Ben var knúin til að segja af sér og boðað var til kosninga 3 árum fyrr en vera skyldi. Kosið var í október og nokkrum vikum síðar hafði verið mynduð ný ríkisstjórn undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur formanns Vg. Hinn nýi forseti vor hefur haft í nógu að snúast hinn pólitískaþátt starfsins og hefur sýnt að hann veldur starfi sínu með sóma. Vopnfirðingar geta litið sáttir um öxl og sem fyrr mótast niðurstaðan af gjöfulleika hafsins. Er full ástæða að horfa björtum augum til komandi árs.

 

Enn heldur áfram að hlýna á jörð vorri, árið 2017 hlýrra en árið á undan þótt nóvember hafi verið kaldari. Lítið fór fyrir vopnfirska sumrinu og fátt sem minnti á hnattræna hlýnun uns komið fram á seinni part þess allt fram yfir fyrsta vetrardag – haustið var indælt með ríkjandi sunnanáttir.

 

Ferðamenn koma til landsins sem aldrei fyrr en engu að síður virðast tölur vera ofmetnar. Fjölgunin er augljós þó og lágönn smám saman að fjara út á suðvestur horninu og á Suðurlandi. Hlutur okkar Vopnfirðinga af kökunni er enn of lítill, víst munum við alltaf þurfa að hafa fyrir því að laða fólk til okkar verandi fjarri þjóðveg 1 en hér er vissulega margt að sjá og upplifa.

 

Áramót 4.jpgÞáttur menningar var sem fyrr áberandi, vert er að nefna framtak Skemmtifélagsins og þátttaka Karlakórs Vopnafjarðar á Heklumóti, kóramót norðlenskra og austfirskra kóra, þar sem kórinn vakti athygli fyrir framlag sitt. Var kórnum boðin þátttaka í menningardagskrá á Egilsstöðum í vetur og kóramóti á Akureyri á nýju ári. Stefna kórar Vopnafjarðar á utanför á vori komanda. Árangur leikmanna Einherja á knattspyrnuvellinum í karla- og kvennaflokkum bar nafn Vopnafjarðar víða og með jákvæðum hætti einum. Fyrir liggur samþykkt um uppbyggingu vallarhúss við íþróttavöllinn og verður bygging þess hafin á nýju ári. Framundan er spennandi ár í sögu Einherja og Vopnfirðinga um leið.

 

Erlendis frá bárust daglega fregnir af átökum, fólki á flótta og vaxandi náttúruhamförum, sem fræðingar rekja til athafna mannsins og hangir saman við hnattræna hlýnun. Eitt versta dæmið um hamfarir ársins er Púertó Ríkó en landið var nánast afmáð af landakortinu í ofsaveðri og verður aldrei endurbyggt í sömu mynd.

 

Ísland nýtur þeirra augljósu kosta að vera eyja langt í norðri, engin landamæri liggja að landi okkar sem menn geta deilt um. Hingað flæðir fólk ekki svo auðveldlega yfir en það breytir ekki því að við eigum að hjálpa okkar minnsta bróður svo sem kostur er; hvort sem það er með því að taka á móti fólki eða hjálpa þeim til sjálfsbjargar heima fyrir. Okkur vegnar vel, betur en flestum en auðvitað má alltaf auka jöfnuðinn því nóg er til skiptanna. Þetta reddast viðhorfið er enn í fullu gildi og með bjartsýnina að vopni má fara býsna langt og hver veit nema Ísland verði áfram besta land í heimi og víst er landið okkar yndislegt – og forréttindi að eiga það sem fósturjörð.

 

Nú árið er liðið í aldanna skaut, og aldrei það kemur til baka – Vopnafjarðarhreppur óskar íbúum sínum og landsmönnum öllum farsældar á nýju ári - gleðilegt ár.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir