Jólin kveðja – þrettándinn á morgun

05.01 2018 - Föstudagur

Á morgun er sjötti janúar, þrettándi dagur jóla. Frá og með morgundeginum munu þau ljós sem lýst hafa upp umhverfið sl. vikur hverfa og myrkur vetrarins grúfa sig yfir samfélagið að nýju. Hins vegar staðfesta tímamótin að daginn er tekið að lengja hænufet hvern dag. Að vanda eru jólin kvödd með bálkesti ofan Búðaraxlar, nú kl. 17:30, og flugeldasýningu Kiwanisklúbbsins Öskju sem fagnar 50 ára afmæli þennan dag. Auk flugeldasýningar, sem er viðameiri en ella, býður klúbburinn til kaffisamsætis í félagsheimilun Miklagarði milli kl. 15:00 – 17:00.

 

Þrettándabrenna og flugeldasýning er staðfesting þess að við viljum gjarnan kveðja jólin með formlegum hætti. Um áratuga skeið hefur sumstaðar ríkt sú venja að haldin er álfabrenna á þrettándanum með þátttöku jólasveina, álfa og trölla. Kemur fólk saman við brennuna með kyndla, skýtur upp síðustu flugeldunum frá áramótunum og syngur saman áramóta- og álfasöngva. Við Vopnfirðingar látum sum sé brennu og flugelda duga en að þessu sinni er meira í boði því Kiwanis býður til veisluborðs í Miklagarði sem segir.

 

IMG_7702.JPGÁ þrettándanum fer Kertasníkir, síðastur jólasveina, frá mannabyggðum aftur til fjalla og þar með lýkur jólunum. Samkvæmt þjóðtrúnni tala kýr mannamál á þrettándanum. Um þjóðtrú tengda þrettándanum gildir flest hið sama og um nýársnótt, meðal annars að selir fari úr hömum sínum, kirkjugarðar rísa, álfar flytjast búferlum og kýr tala mannamál. Hættulegt gat verið að hlusta á tal kúnna því þær reyndu að æra þá sem það gerðu.

 

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er meðal annars þessa sögn að finna:

 

Á nýársnótt verða margir hlutir undarlegir. Það er eitt að kýr mæla þá mannamál og tala saman. Einu sinni lá maður úti í fjósi og á nýársnótt til þess að heyra hvað kýrnar töluðu. Hann heyrir þá að ein kýrin segir: „Mál er að mæla (aðrir: mæra).“ Þá segir önnur: „Maður er í fjósi.“ „Hann skulum vér æra,“ segir þriðja kýrin. „Áður en kemur ljósið,“ segir hin fjórða. Frá þessu gat maðurinn sagt morguninn eftir, en ekki fleiru því kýrnar höfðu ært hann. (Jón Árnason. Íslenskar þjóðsögur og ævintýri I, 609).

 

Myndirnar eru frá 13da brennu fyrri ára.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir