Jólin kvödd með eftirminnilegum hætti

08.01 2018 - Mánudagur

Jólin eru að baki. Blessað jólaskrautið fór niður á velflestum heimilum landsins um helgina. Þegar skrautið hverfur finnum með áþreifanlegum hætti fyrir breytingunni en skjótt verður allt sem fyrr í hringiðu hvunndagsins. Þrettándinn var á laugardag og um langt árabil hefur sveitarfélagið boðið íbúum upp á bálköst og flugeldasýningu í tengslum við hann undir handarjarðri Kiwanis. Svo var sannarlega nú, sýningin hin glæsilegasta í tilefni 50 ára afmælis Kiwanisklúbbsins Öskju og hátíðarkaffið maður minn, það var stórglæsilegt!

 

Klukkan fimmtán núll núll stóð allt klárt í félagsheimilinu með sjálfa afmælistertuna sem höfuðdjásn hlaðborðsins sem Sjafnarkonur áttu heiðurinn af. Ingólfur Bragi forseti Kiwanisklúbbsins Öskju flutti stutta tölu í upphafi, bauð gesti velkomna og fór í fáum orðum um sögu klúbbsins og stöðu hans nú. Virkir félagar eru 15 og koma saman reglulega árið um kring. Ingólfur Sveinsson svæðisstjóri Óðinssvæðis sem nær frá Sauðárkróli og hingað bað fólk um að klappa Víglundi Pálssyni og Sigurði Ólafssyni stofnfélögum lof í lófa, þeir virkir fram á þennan dag. Síðan var gestum boðið að hlaðborðinu og Bræðrabandið (nafngift tíðindamanns) tók til að leika og lék æði stund gestum til ánægju.IMG_1424.JPG

 

Klukkan 17:30 var komið að tendrun bálkastarins sem brátt skíðlogaði. Þegar eldurinn hafði læst sig í allt timbrið tóku Kiwanisfélagar að skjóta flugeldum yfir höfuð gesta. Seint fáum við nóg af skoteldasýningum og þessi var af stærri gerðinni. Allir nærstaddir glöddust. Jólin 2017 höfðu verið kvödd á Búðaröxlinni – á árinu 2018. Jólin eru 2var á ári.

 

Meðfylgjandi eru myndir tíðindamanns af viðburðum dagsins. Bestu þakkir Kiwanis fyrir glæsilega framgöngu og hugheilar kveðjur af tilefni hálfrar aldar afmælisins.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir