Fjárhagsáætlun sveitarfélagins til kynningar

10.01 2018 - Miðvikudagur

Sveitarstjóri boðaði til almenns fundar um fjáhagsáætlun Vopnafjarðarhrepps fyrir árið 2018 í Kaupvangskaffi í gærkvöldi. Almennt virðist fólk ekki sýna málinu mikinn áhuga, allténd ber mætingin þess merki. Þeir sem á hinn bóginn mæta hafa þeim mun meiri áhuga og taka virkan þátt í samtalinu um fjármál sveitarfélagsins og framtíðarhugmyndir. Fylgdi sveitarstjóri málinu úr hlaði með slæðusýningu hvar helstu lykiltölur fjárhagsáætlunarinnar voru tilteknar ásamt framkvæmdaáætlun ársins.

 

Samkvæmt samþykktri áætlun sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps er þess vænst að rekstrarniðurstaðan verði jákvæð um liðlega 133 milljónir króna. Verður það að teljast góður árangur en áætlaðar eru framkvæmdir upp á 105 milljónir. Heildartekjur sveitarfélagsins (A- og B- hluta) á árinu 2018 eru áætlaðar 1.051.2 millj. kr. Þar af eru tekjur A- hluta áætlaðar 726.3 millj. kr. Tekjur A- og B – hluta skiptast á eftirfarandi hátt; skatttekjur 401.1 millj. kr., framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 218.1 millj. kr., aðrar tekjur 432.0 millj. kr.

 

Rekstrarniðurstaða samstæðunnar í heild á árinu 2018 er jákvæð um 133.8 millj. kr.

 

Langstærsta einstaka framkvæmd ársins er bygging vallarhúss á íþróttasvæðinu sem fer í gegnum deiliskipulagsferli samfara hönnun byggingarinnar. Var verkefnið nánar kynnt af Magnúsi Má, sem átt hefur sæti í bygginganefnd hússins frá upphafi, en annars var það Ólafs Áka að svara fyrir framkomnar fyrirspurnir. Og þær voru margar og vörðuðu bæði það sem fyrir liggur að gera og það sem mögulega þyrfti að gera. Var fólki frjálst að tjá sig og fram fór samtal um fjármál sveitarfélagsins og stöðu þess. Viðvarandi fækkun íbúa hefur verið nánast síðan 1990 en talið er að viðsnúningur hafi átt sér stað á umliðnu ári og víst er gleðilegt að geta þeirrar fjölgunar sem átt hefur sér stað í leikskólanum.

 

Helstu atriði í fjárfestingum ársins 2018 eru: Vallarhús 50 m.kr. - vænst er 15 m.kr. styrks úr Mannvirkjasjóði KSÍ – ljósnet 28 m.kr., fráveita 7.5 m.kr., gatnagerð 4 m.kr., leikskólalóð 4 m.kr., urðunarstaður 2.5 m.kr. og brunavarnir 2.5 m.kr.

 

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir tíndamanns og Bjarka Björgólfssonar af fundinum.

 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir