Fagurt veður á Vopnafirði

22.01 2018 - Mánudagur

Vopnfirðingar nutu hins fegursta veðurs í gær, vindstilla í heiðríkju og frosti sem ku hafa verið nokkrum gráðum undir -10 - sannkallaður kyrrðarkuldi. Birtan er smám saman að vinna á, munar um klukkustund til beggja enda frá stysta degi liðins árs 21. desember til dagsins í dag. Enn eru 2 mánuðir til vorjafndægurs í kringum 20. mars en þangað til mun daginn lengja jöfnum skrefum uns frá deginum í dag til 22. mars lengst um 5.5 klukkustundur. Gerpir er austasti staður Íslands og þar kemur sólin fyrst upp.

 

Þorri er nýhafinn sem kunnugt er og úr því að hann er okkur enn hugleikinn fer ágætlega á að birta heiti fornu mánaðaheitanna og tímaafmörkun þeirra.

 

 • Þorri– Hefst á föstudegi í 13. viku vetrar á bilinu 19. til 25. janúar.
 • Góa – Hefst á sunnudegi í 18. viku vetrar á bilinu 18. til 24. febrúar.
 • Einmánuður – Hefst á þriðjudegi í 22. viku vetrar á bilinu 20. til 26. mars.
 • Harpa – Hefst á næsta fimmtudegi eftir 18. apríl.
 • Skerpla – Hefst á laugardegi í 5. viku sumars á bilinu 19. til 25. maí.
 • Sólmánuður – Hefst á mánudegi í 9. viku sumars á bilinu 18. til 24. júní.
 • Heyannir – Hefst á sunnudegi eftir aukanætur á miðju sumri á bilinu 23. til 30. júlí.
 • Tvímánuður – Hefst á þriðjudegi í 18. viku sumars eða hinni 19., ef sumarauki er, á bilinu 22. til 28. ágúst.
 • Haustmánuður – Hefst á fimmtudegi í 23. viku sumars á bilinu 20. til 26. september.
 • Gormánuður – Hefst á laugardegi á bilinu 21. til 27. október.
 • Ýlir – Hefst á mánudegi í 5. viku vetrar á bilinu 20. til 27. nóvember.
 • Mörsugur – Hefst á miðvikudegi í 9. viku vetrar á bilinu 20. til 27. desember.

Ef smellt er á hvert mánaðarheiti fást frekari upplýsingar á Wikipedia.

Meðfylgjandi eru myndir tíðindamanns frá bæjarrölti gærdagsins.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir