Vopnafjörður í brennidepli – viðtal við sveitarstjóra

25.01 2018 - Fimmtudagur

Ólafur Áki sveitarstjóri er í viðtali í 1. tbl. ársins vikublaðsins Austra og þar sem það er áhugavert fer vel á að birta kafla úr því hér. Segir þar að í fjárhagsáætlun Vopnafjarðarhrepps fyrir árið 2018 sé gert ráð fyrir heildartekjum upp á liðlega milljarð króna og rekstrarniðurstaðan jákvæð um tæpar 134 milljónir. Til framkvæmda verði varið 105 m.kr. eða um 78% af áætluðum rekstrarafgangi. Vegur þar þyngst bygging vallarhúss á íþróttasvæðinu upp á 50 m.kr. en þess er vænst að úr Mannvirkjasjóði KSÍ komi samtals 15 m.kr. til byggingarinnar. Verið er að vinna deiliskipulag fyrir svæðið og þar er m.a. gert ráð fyrir fjölnota íþróttahúsi og útivistarsvæði.

 

Helstu framkvæmdir sveitarfélagsins á árinu voru kynntar hér þann 10. janúar sl. í tengslum við kynningu sveitarstjóra á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Vikið var að mikilvægi hjúkrunarheimilisins Sundabúðar fyrir samfélagið í heild sinni, þeirra sem þangað fara, aðstandendur þeirra og þau störf sem starfseminni fylgir. Afgerandi þáttur er félagsstarf eldri borgara en það starf var útvíkkað fyrir 2 árum og komið einkar vel út.

 

Annar stærsti útgjaldaliður ársins er lagning ljósleiðara í dreifbýlinu, samtals 28 m.kr. á árinu. Eru vonir bundnar við byggð styrkist með tilkomu ljósnetsins enda skapast aðstæður fyrir fólk að sinna ýmsum störfum fjarri vinnustað með bættu aðgengi að netinu.

 

Í samtalinu gerir Ólafur nokkur fyrirtæki á staðnum að umtalsefni og tilgreinir fyrst þeirra HB Granda hf. sem starfrækir bæði uppsjávar- og bolfisksvinnslu með 65 fasta starfsmenn. Um mikilvægi félagsins þarf ekki að fjölyrða en sveitarfélagið hefur lagt sitt af mörkum til að mæta þörfum þess með dýpkun hafnarinnar og fyrir nokkrum árum stækkun hafnarinnar. Dýpkunin ein og sér kostaði hátt í 200 m.kr.

 

Bílar og vélar ehf. er annað öflugt fyrirtæki á staðnum er þjónustar einstaklinga og fyrirtæki. Mikil þekking hefur skapast innan þess m.a. í tengslum við uppbyggingu fiskvinnslunnar. Mælifell ehf. er verktakafyrirtæki í trésmíði og skyldri starfsemi. Þau eru ófá verkefnin sem fyrirtækið hefur komið að undanfarna áratugi, um er að ræða öflugt fyrirtæki í sinni grein. Steiney ehf. gerir út bíla, gröfur og rekur steypistöð. Nýlega var undirritaður samningur Steineyjar og Vopnafjarðarhrepps um að fyrirtækið tæki að sér sorphirðu og -urðun. Með samningnum er meðvitað dregið úr verkefnum sveitarfélagsins og væri markmiðið að efla verktakastarfsemi á svæðinu frekar með fjölbreyttari atvinnutækifærum.IMG_1574.JPG

 

Ferðaþjónustan er orðin stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar og mikil þörf á að Vopnfirðingar vinni sína heimavinnu til að ná fleiri störfum í þeirri grein. Bæta þarf innviði og auka þjónustuna við ferðamenn og íbúa staðarins. Þar er þáttur afþreyingar mikilsverður. Í samstarfi við Ildi, Austurbrú og Byggðastofnun stendur sveitarfélagið fyrir verkefni sem fékk heitið „Veljum Vopnafjörð“  sem hófst með íbúaþingi fyrir 1.5 ári. Er það mat Ólafs að verkefnið hafi haft jákvæð áhrif fyrir samfélagið.

 

Í niðurlagi samtalsins var vikið því stóra máli sem húsnæðismálin eru og er það skoðun Ólafs að þau sé eitt af stærstu vandamálum hinna dreifðu byggða. Það liggur í hlutarins eðli að þegar raunverð húsnæðis er langt undir byggingarkostnaði að málið er snúið. Hafa sveitarfélög á Austurlandi ákveðið að sameinast um gerð húsnæðisáætlunar fyrir fjóðunginn í heild. Fundað hefur verið með aðilum innan byggingageirans um byggingu íbúða sem hlutaðeigandi félag myndi eiga og reka. Forsenda samninga er að sýnt verði fram á afdráttarlausa þörf fyrir húsnæði. Segir Ólafur stærsta þröskuldinn í vegi aðkomu byggingafélags vera hinar háu meðaltekjur íbúa Austurlands, framlag fæst einfaldlega ekki frá ríkinu. Brýnt er því að mörkin verði hækkuð eða hreinlega niðurfelld. Afstaða fólks hefur breyst á undanförnum árum. Unga fólkið er tregara að flytja út á land og horfir fremur til leigumöguleika en að byggja sjálft. Það kjósi að fara á eigin forsendum og meta hvort það vilji festa rætur eður ei. Leiguhúsnæði að norrænni fyrirmynd er lykillinn að því að byggð vaxi og dafni utan höfuðborgarsvæðisins voru lokaorð Ólafs Áka í viðtalinu.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir