Rysjótt tíð framundan

31.01 2018 - Miðvikudagur

Frónbúar hafa langa reynslu af tíðum veðrabrigðum árið um kring. Nú þegar hyllir undir lok fyrsta mánaðar ársins og enn er miður vetur má gera ráð fyrir rysjóttri tíð næstu daga. Fyrir þá sem hyggjast leggja land undir fót sjálfsagt að líta á veðurkortið áður en lagt er í hann. Gert er ráð fyrir norðlægri átt í dag og éljagangi á norðanverðu landinu en bjartviðri sunnantil. Gengur í norðvestan 18-23 í nótt suðaustantil en yfirleitt 10-15 á Norðaustur- og Austurlandi og enn hægari á vestanverðu landinu. Lægir og dregur úr éljum síðdegis á morgun, og þar með kveður norðanáttin okkur í bili.

 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

 

Á föstudag:

Suðaustan stormur í fyrstu, með talsverðri rigningu eða slyddu S- og V-lands. Snýst síðan í allhvassa suðvestanátt með éljagangi, fyrst á SV- og V-landi. Hiti 0 til 5 stig, en frystir víða um kvöldið.

 

Á laugardag:

Suðvestan 8-15 m/s og él, en léttskýjað á A-verðu landinu. Frost 0 til 5 stig.

 

Á sunnudag:

Gengur í sunnan storm með talsverðri rigningu, en úrkomulítið NA-lands. Hiti víða 5 til 10 stig. Slydda eða snjókoma V-til á landinu um kvöldið og kólnandi veður.IMG_9715.JPG

 

Á mánudag og þriðjudag:

Suðvestanátt og éljagangur, en þurrt A-lands og bjart með köflum. Frost um allt land.

 

Segir á vef Veðurstofunnar að við Nýfundnaland er lægð að brýna kutana sína á leið sinni til okkar. Úrkomuskil frá henni ganga yfir landið aðra nótt með hvassviðri eða storm og snjókomu í fyrstu en síðar rigningu. Þegar að lægðin kemur nær landi verður vindur vestlægari og það kólnar, él vestantil en bjartviðri eystra. Á sunnudag er svo útlit fyrir næstu djúpu lægð með hvössum vindi og rigningu, áður en það kólnar aftur á mándag með éljum vestantil. Svo eru líkur á að þriðja lægðin kemur upp að landinu á miðvikudag.

 

Það eru því umhleypingarsamir tímar framundan, en bjartviðri og úrkomulítið í dag um landið suðvestanvert. Um að gera að njóta þess á meðan það varir.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir